Hvernig hentar Nýja stjórnarskráin sem efniviður í myndlistar- og tónverk? Myndlistartvíeykið Libia Castro og Ólafur Ólafsson eru þess fullviss að hún henti vel til slíkrar úrvinnslu. Á nýafstaðinni Cycle-hátíð í Kópavogi fengu þau fjölmarga listamenn til samstarfs við sig, með það fyrir augum að vinna slíkt verk, sem þau vona að fari sem víðast.
„Þetta er smá svona „back to the future“ því það liggur við að ég leiðrétti mig þegar ég tala um að við séum að vinna verk upp úr „nýju“ stjórnarskrártillögunni sem var samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu fyrir sex árum. Hversu lengi er nýtt nýtt?“ segir Ólafur Ólafsson í viðtali í Víðsjá á Rás 1. „Þetta er sjálfstætt framhald af stjórnarskárverki sem við unnum á árunum 2007 til 2008 með núgildandi stjórnarskrá og gerðum svo sjónvarpsútgáfu af árið 2011 með Sjónvarpinu.“
Fjölbreyttari tónlist
Í fyrra verkefninu var það Karólína Eiríksdóttir tónskáld sem samdi tónlistina í verkið, en hún er einnig meðal samstarfsfólks þeirra Ólafs og Libiu í þetta sinn, en nú eru mun fleiri tónlistarmenn sem koma að verkinu og tónlistin er fjölbreyttari.
„Við erum að vinna þetta fjölradda og það var ljóst að við urðum að vinna þetta núna með hópi fólks, til að endurspegla þá hópvinnu sem átti sér stað á stjórnlagaráðinu á sínum tíma og býr að baki nýju stjórnarskránni. Við erum að vinna með fleiri tegundir tónlistar og víðara svið, en í fyrra verkinu. Þá var það „klassísk samtímatónlist“ en nú koma rapp, popptónlist og jafnvel kvæðasöngur við sögu. Við viljum vinna með bæði faglærðu og ófaglærðu tónlistarfólki og blanda saman tónlist og „ekki-tónlist.““
Þrýstingur um að halda áfram
Ólafur segir að þau Libia og samstarfsfólk þeirra stefni að flutningi á verkinu líklega að ári. Hann segir verkið frá þeirra hálfu þrýsting um að endurskoðun stjórnarskrárinnar haldi áfram. „Þetta er auðvitað þrýstingur að okkar hálfu. Það var kosið árið 2012 og það hefur ekki verið farið að þeim vilja.“
Vinnustofur fyrir verkefnið hafa farið fram í Berlín og á Cycle hátíðinni í Kópavogi, en í viðtalinu úr Víðsjá á Rás 1 hér að ofan lýsir Ólafur Ólafsson verkefninu nánar og brot má heyra úr vinnustofunum í Kópavogi. Á myndinni hér að ofan má sjá Bjöllukór Tónstofu Valgerðar sem var meðal þeirra sem tók þátt í vinnustofu verkefnisins.