Fjöldi hjúkrunarfræðinga sem starfað hefur í Svíþjóð síðustu ár, hefur nú verið kærður fyrir að beita blekkingum til að verða sér úti um starfsleyfi. Í mörgum tilfellum hefur fólk unnið árum saman við sum af stærstu sjúkrahús landsins, að því er virðist án þess að hafa til þess nokkra menntun.
Sjúklingum stafar hætta af svikseminni
Fjöldi fólks - bæði læknar og hjúkrunarfræðingar - starfa á sjúkrahúsum og víðar innan heilbrigðiskerfisins hér í Svíþjóð án þess að hafa til þess tilskilin leyfi. Aðrir hafa orðið sér úti um starfsleyfi með því að framvísa prófskírteinum sem eru í raun lítils virði.Þetta getur auðvitað verið stórhættulegt fyrir sjúklinga. Enda brot á lögum um öryggi þeirra. En þótt ótrúlegt megi hljóma, virðist það vera erfitt fyrir yfirvöld í Svíþjóð að gera nokkuð í málunum.
Hundruð lækna og hjúkrunarfræðinga hafði ekki starfsleyfi
Það var í nóvember í fyrra sem fréttaskýringarþáttur sænska ríkissjónvarpsins, Uppdrag granskning, upplýsti að 335 læknar og hjúkrunarfræðingar væru að störfum í Svíþjóð án þess að hafa starfsleyfi. Fólkið kann að hafa lokið nauðsynlegu námi, en starfar engu að síður án nauðsynlegs starfsleyfis frá heilbrigðisyfirvöldum. Þá leiddi rannsóknin í ljós að minnst 27 læknar og hjúkrunarfræðingar hafi fengið starfsleyfi með því að beita blekkingum - fólk sem í raun hafði ekki tilskylda menntun.
Vann próflaus í áratug áður en upp komst
Aðallega eru þetta plat-hjúkrunarfræðingar. Og dæmin eru sláandi. Maður einn vann til að mynda í 10 ár sem hjúkrunarfræðingur á sjúkrahúsi í Sundsvall í Norður-Svíþjóð, áður en sjúklingur gerði yfirvöldum viðvart og maðurinn var ákærður og dæmdur. Sumir þessara plat-hjúkrunarfræðinga höfðu hreinlega falsað prófskírteini og önnur skjöl og þannig orðið sér úti starfsleyfi. Aðrir segjast hafa lagt stund á nám erlendis, og hafa upp á það prófskírteini. En í raun virðist fólkið lítið eða ekkert hafa sinnt náminu.
Eiga prófskírteini en stunduðu aldrei nám
Hjúkrunarfræðimenntun ber að stunda sem fullt nám, í þrjú ár. Helmingurinn er bóknám, hinn helmingurinn starfsnám, samkvæmt ítarlegum reglum Evrópusambandsins. En þrátt fyrir þetta gat sænska ríkissjónvarpið fundið dæmi um fólk sem hafði útskrifast frá háskólum í Rúmeníu og Póllandi, sem hafði ekki einu sinni verið í viðkomandi landi á þeim tíma sem það segist hafa verið við nám.
Var að keyra vörubíl þegar hann sagðist vera að taka próf
Þannig var því til að mynda háttað hjá manni sem starfaði sem hjúkrunarfræðingur á sjúkrahúsi hér í Gautaborg. Í viðtali við fréttamann viðurkenndi maðurinn að hann hafi ekki sótt nám í hjúkrunarfræði í Rúmeníu, eins og hann hafði haldið fram, heldur bara farið þangað til að taka lokaprófin. Á meðan á meintu háskólanámi stóð, hafði maðurinn enda alls ekkert verið í Rúmeníu, heldur Svíþjóð, þar hann sem vann, í fullu starfi, sem vörubílstjóri.
Gat hvorki tekið fólki blóð né þekki algeng lyf
Það fór heldur ekkert fram hjá samstarfsfólki hans að maðurinn kunni eiginlega ekkert fyrir sér - gat ekki tekið einfaldar blóðprufur og þekkti ekki algeng verkjalyf. Yfirmanni hans var gert viðvart, strax árið 2016. Og í framhaldinu haft samband við heilbrigðisyfirvöld. En þau skoðuðu bara prófskýrteinið og töldu ekkert athugavert við málið. Maðurinn hélt því áfram að starfa sem hjúkrunarfræðingur á einu stærsta sjúkrahúsi landsins, í tvö ár.
Annar plat-hjúkrunarfræðingur vann í verslun í Svíþjóð á sama tíma og hún var að sögn við nám í Póllandi. Og sá þriðji var á námsárum sínum í Rúmeníu, í fullu stafi sem byggingaverkamaður í Stokkhólmi.
Það virðist nefnilega vera að einhverjir háskólar gefi út prófskírteini til fólks sem hefur í raun ekki verið við námið. Það virðist í sumum tilfellum nægja að borga skóalgjöldin, eða að mæta bara í lokaprófin.
Rannsókn fyrirskipuð í Rúmeníu
Yfirvöld í Rúmeníu vita af málinu og harma það. En benda á að það þurfi að vera hægt að sanna að prófskírteinin stemmi ekki. Ella sé erfitt að synja fólki um starfsleyfi. Heilbrigðisráðherra landsins hefur nú fyrirskipað rannsókn á öllum þeim háskólum sem mennta heilbrigðisstarfsfólk. Yfirvöld menntamála í Rúmeníu rannsaka einnig hvernig fylgst er með mætingu nemenda og hvernig lokaprófum frá háskólum er háttað.
Að minnsta kosti einn skóli hefur þegar misst leyfið til að útskrifa hjúkrunarfræðinga, eftir að rúmenskur blaðamaður afhjúpaði að nemendur mútuðu stundum kennurum og fengu svör við prófspurningum fyrirfram.
Ekki auðvelt að uppræta svikin
Erfitt er að segja til um hve margir sjúklingar hafa orðið fyrir skaða vegna svindlsins. En í einni af fréttum sænska ríkissjónvarpsins kemur fram að grunur sé uppi um að plat-læknir sem starfaði syðst í Svíþjóð, hafi veitt 37 sjúklingum ranga meðhöndlun. Rannsókn á því máli var reyndar ekki lokið, heldur henni hætt, vegna þess að plat-læknirinn sem um ræðir, fór úr landi.
Og það virðist ekki einfalt mál að taka á þessu svindli, þótt alvarlegt sé.
Dæmd fyrir brot - komin aftur í vinnu
Einn plat-hjúkrunarfræðingurinn var dæmdur fyrir brot á lögum um réttindi sjúklinga, þar eð hann laug til um starfsfréttindi sín. Þetta var árið 2015. Síðasta haust kom svo í ljós að viðkomandi var komin aftur í vinnu sem hjúkrunarfræðingur, meðal annars á Karolinska háskólasjúkrahúsinu í Stokkhólmi - einu þekktasta sjúkrahúsi heims. Þrátt fyrir dóminn, og þrátt fyrir að fram komi í honum að konan er ekki hjúkrunarfræðimenntuð, fékk hún starfsleyfi frá heilbrigðisyfirvöldum. Starfsleyfið er veitt á grundvelli háskólaprófs frá Egyptalandi, en prófið virðist falsað að því er eftirgrennslan sænska ríkissjónvarpsins leiðir í ljós.
Mánaðarannsókn ekki leitt nýtt í ljós
Frá því að fréttaskýringaþátturinn Uppdrag granskning fjallaði um málið í nóvember í fyrra, hafa heilbrigðisyfirvöld verið að rannsaka það. En að þeirra sögn hefur rannsóknin ekki leitt í ljós neinar nýjar upplýsingar sem gefa tilefni til að endurskoða starfsleyfi fólksins. Því hefur verið brugðið á það ráð að kæra nokkra einstaklinga til lögreglu. Lögreglan hefur nefnilega lagaheimildir sem heilbrigðisyfirvöld skortir til að rannsaka málið áfram. Komi fram nýjar upplýsingar, verður kannski hægt að endurskoða starfsleyfin, að því er segir í fréttatilkynningu heilbrigðisyfirvalda.
Á meðan heldur fólkið starfsleyfi sínu, og getur haldið áfram störfum á sjúkrahúsum og heilsugæslustöðvum í Svíþjóð.