Fjármálaráðherra vill kasta krónunni

20.07.2017 - 04:46
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
„Nú er kominn tíminn til þess að ýta gömlum kreddum til hliðar og þora að marka leið stöðugleika þar sem hagsmunir almennings og fyrirtækja fara saman.“ Svo skrifar Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra í aðsendri grein í Fréttablaðinu í morgun þar sem hann talar fyrir því að hafna krónunni sem gjaldmiðli Íslands.

Hann segir krónuna óútreiknanlega og örlitlar breytingar í utanríkisverslun og gjaldeyrisflæði geta haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar á hag fyrirtækja og almennings. Krónan leiði til óstöðugleika, búi til sveiflur og leiði til óábyrgra fjárfestingarákvarðana og óstöðugs kaupmáttar, segir fjármálaráðherra í greininni. 

Benedikt segir flokk sinn, Viðreisn, hafa verið stofnaðan til að stuðla að sátt og stöðugleika. Það sé ekki hægt án stöðugs gjaldmiðils og vaxta sem boðið er upp á í nágrannalöndum. Bendir hann á myntráð í því samhengi, lausn sem hann segir mörg Evrópuríki hafa nýtt í áratugi.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV