Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, segir samninganefnd ríkisins ekki geta teygt sig nær kröfum lækna og skorar á lækna að sýna almenningi kröfur sínar. Læknadeilan var rædd á fundi ríkisstjórnarinnar í morgun.
Samninganefndir lækna og ríkisins hittust í morgun til að freista þess að semja í kjaradeilunni sem staðið hefur í ellefu mánuði. Verkfallsaðgerðir hafa staðið síðan í lok október og verða hertar eftir áramót.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir að honum lítist ekki á blikuna í læknadeilunni. Stjórnvöld hafi gefið samninganefndinni víðtækt umboð til að leysa þessa deilu. „Ég stend við það fullum fetum að það sem boðið hefur verið af hálfu ríkisins séu verulegar kjarabætur, verulega miklar, yfir samningstímann, vegna þess að við deilum áhyggjum af því sem rætt hefur verið svo mikið um að það séu komin upp vandamál t.d. við að laða að unga lækna úr sérfræðinámi að það sé viss atgerfisflótti í greininni. En við höfum líka tekið á þeim vanda með ýmsum öðrum hætti, við höfum stóraukið framlög til Landspítalans og annarra heilbrigðisstofnana víða um landið. Við höfum líka tekið til endurskoðunar tækjakaupaáætlun Landspítalans og sett milljarð til tækjakaupa á næstu árum. Við höfum í þessum samningaviðræðum boðið launabætur sem bera skýrt merki um að við viljum leysa deiluna en erum ekki til í að ganga að hvaða kröfum sem er og yfirlýsingar lækna sem við höfum verið að lesa í fjölmiðlum að undanförnu valda mér verulegum áhyggjum verð ég að segja.“
-Það er talað um að ef ekki náist að semja áður en næsta verkfallshrina skellur á, þá sjáum við jafnvel fram á miklar uppsagnir lækna, hefur þú áhyggjur af þessu? „Auðvitað hef ég áhyggjur af þessu og ég spyr mig líka hvaða innistæða er fyrir þeim viðbrögðum m.a. í ljósi þess sem ríkið hefur lagt á borðið nú þegar. Það er enginn eylandi í þessu landi það getur enginn áskilið sér kjarabætur langt langt umfram það sem allir aðrir geta haft væntingar um og jafnvel þótt það tækist um það samstaða að gera sértaklega vel til lækna þá eru því ytri mörk sett hversu langt er hægt að ganga í þeim efnum. Og ég tel að þær kröfur sem að nú síðast hafa birst af hálfu lækna við samningaborðið í gær séu fyrir utan þau mörk því miður og því verður ekki gengið að þeim kröfum. Það er ekkert nema ávísun á frekari óróa og ósætti á vinnumarkaði.“
-Á hverju strandar helst, hvaða prósentur erum við að tala um? „Ég held að það væri bara best, lang best að læknar gerðu sjálfir grein fyrir því. Það er kominn tími til þess að læknar geri grein fyrir því hvaða kröfur það eru sem ríkið vill ekki ganga að og er að valda því að þeir eru að fara í þetta umfangsmiklar vekrkallsaðgerðir. Ég skal þá bjóða fram útreikninga ríkisins á því hversu mikill launakostnaður ríkisins muni hækka við það að ganga að þeim kröfum. Þannig að umræðan sé ekki í einhverri móðu.“
-Hafið þið teygt ykkur eins langt og þið komist? „Já, það verður ekki lengra gengið af hálfu ríkisins í frekari tilboðsgerð og mér finnst vafasamt að ríkið geti staðið við það sem þegar hefur verið lagt á borðið ef að til verkfalls kemur þá verðum við að taka okkar samningsafstöðu til endurskoðunar.“
alma@ruv.is