Bæjaryfirvöld sveitarfélaganna fjögurra á Suðurnesja telja að framlög til ríkisstofnana á svæðinu séu ekki í takt við fjölgun íbúa og hafa undanfarin ár þrýst á um breytingar, án árangurs. Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, segir að ekki gangi upp að ríkið miði við 1 prósents íbúafjölgun. Síðustu ár hafi fjölgunin í Reykjanesbæ verið um 8 prósent á hverju ári.

Kjartan sagði í viðtali í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun að bæjaryfirvöld sveitarfélaganna á Suðurnesjum hafi undanfarin ár fundað með ráðherrum, ráðuneytisstjórum og þingmönnum til að benda á vandann. Það séu helst fjárframlög til Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja, Fjölbrautaskóla Suðurnesja og löggæslustofnana sem þurfi að auka. Reglum um framlög úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga hafi verið breytt þannig að tekið er tillit til svæða þar sem íbúafjölgun er mikil og það sé mjög jákvætt en gera þurfi betur þegar komi að framlögum til ríkisstofnana. 

„Þegar íbúafjölgunin er eins og hjá okkur, 8 prósent ár eftir ár, þá fer það ekki saman við þessa meðaltalstölu sem reiknilíkön sem ríkisstofnanir og ráðuneytin notast við, sem er upp á 1 prósent fjölgun. Það bara gengur ekki. Þannig að við finnum fyrir því núna að það vantar verulega upp á að ríkisstofnanir fái þær fjárveitingar sem þær þurfa til að geta tekist á við þessa miklu íbúafjölgun svo að ekki sé talað um þá staðreynd að stór hluti af íbúum svæðisins er af erlendu bergi með öllum þeim áskorunum sem því fylgja,“ segir bæjarstjórinn. 

Reykjanesbær er nú fjórða stærsta bæjarfélagið á Íslandi og eru íbúarnir tæplega 19.000. Áður var Akureyri það fjórða stærsta. Kjartan segir það sem skýri þessa fjölgun sé helst að eftir brotthvarf varnarliðsins árið 2006 hafi verið mikið af húsnæði á lausu á mun hagstæðara verði en á höfuðborgarsvæðinu og sömuleiðis næga vinnu að hafa. „Þegar þetta fer saman; hagstætt húsnæði, atvinnutækifæri og fleira þá gerast svona hlutir.“

Skuldir Reykjanesbæjar eftir hrun voru miklar og var skuldahlutfallið langt yfir viðmiði ríkisins. Nú stefnir í að Reykjanesbær nái því viðmiði fyrr en áætlað var, að öllu óbreyttu. Framtíðin er því björt í Reykjanesbæ, að mati Kjartans Más.

Hægt er að hlusta á viðtalið í heild sinni í spilaranum hér fyrir ofan.