Þorsteinn B. Friðriksson og Ýmir Örn Finnbogason sem voru helstu stjórnendur Plain Vanilla stofnuðu fyrir tveimur árum hugbúnaðarfyrirtækið Teatime sem gaf út sinn fyrsta tölvuleik í febrúar.

Þorsteinn og Ýmir kynntust í Menntaskólanum í Reykjavík. Þeir harma mjög ósigur MR gegn Kvennó í úrslitum Gettu betur síðasta föstudag, en sigurganga MR í keppninni var óslitin öll árin sem þeir voru skólanum. „Á vissan hátt má segja að Gettu betur sem spurningaleikur hafi seinna verið okkur innblástur fyrir QuizUp,“ sagði Þorsteinn í Mannlega þættinum. „Í QuizUp var formattið þannig að þú varst að keppa við tímann, þú hafðir bara mínútu, það er líkt hraðaspurningunum í Gettu betur.“

Meira en 100 milljónir notenda

Þorsteinn og Ýmir störfuðu fyrst saman í nemendafélagi viðskiptafræðinema í Háskólanum í Reykjavík. Þar sá Þorsteinn um félagslífið, og varð síðar formaður, og Ýmir hélt utan um peningamálin sem gjaldkeri – og mætti segja að sú hlutverkaskipan hafi haldist í Plain Vanilla, þar sem Þorsteinn var forstjóri og Ýmir fjármálastjóri. „Ég held við höfum skilað af okkur mjög miklum hagnaði sem var mjög óvenjulegt með nemendafélag. Þannig það var eitthvað að virka í þessu samstarfi,“ segir Ýmir.

Þorsteinn lauk MBA-námi í Bretlandi og kom heim stuttu eftir hrun og stofnar Plain Vanilla - sem gengur ekki sérlega vel í fyrstu. En þegar hugmyndin að QuizUp er komin á kortið fær hann Ými til liðs við sig. „Hann hitti mig og rissaði hugmyndina að QuizUp á blað. Það tók hann ekki langan tíma að sannfæra mig um að hætta hjá Deloitte og koma í þetta ævintýri. „Það eru 80 eða 90% líkur á að þetta gangi ekki eftir. En ég skal lofa þér því, þetta verður geggjað ferðalag,“ sagði hann, held ég. Sem það var.“ Félagarnir neyddust hins vegar til að selja Plain Vanilla í lok árs 2016. „Í stuttu máli sagt, þó við höfum náð miklum vinsældum, og QuizUp er ennþá til og er vinsæll, spilaður af milljónum út um allan heim. Þá náðum við aldrei að skapa tekjurnar sem þurfti til að keyra hann áfram. Þetta var orðinn stór rekstur, yfir 100 manns í vinnu á Íslandi.“ QuizUp varð fljótt mjög vinsæll leikur - með yfir hundrað milljónir notendur.

Samskiptin mikilvægust

Þeir segja að Teatime sé rökrétt framhald af því starfi sem hafi verið unnið í QuizUp, þeir hafi byrjað á því að greina hvað var að virka, og hvað ekki. „Ein af ástæðunum fyrir því að QuizUp var vinsæll var að þú varst að spila við alvöru fólk, vini þína og svona,“ segir Þorsteinn. „Stór hlut af því að hittast og spila borðspil er til dæmis samskiptin við vini þíni, ekki bara spilið sjálft. Leikir í símum, þá ertu hins alltaf bara einn að spila, Candy Crush og svona.“ Í Teatime séu þeir hins vegar að þróa tækni sem geri það kleift að blanda saman vídjókamerunni úr símanum við leikjaspilunina, þannig fólk geti spilað tölvuleiki við vini sína og talað við þá í mynd á sama tíma, og jafnvel sett ýmsa filtera ofan í kameruna. „Þú er til dæmis að spila víkingaleik við vini þína og sérð þá á skjánum og talar við þá, og þú getur sett á þig víkingahjálm eða búinga á þig til að setja þig inn í fantasíuna.“

Teatime er ekki hugsað sem einn leikur heldur það sem í hugbúnaðargeiranum er kallað „platform“, umgjörð eða kerfi utan um þá. „Þannig það sé hægt að búa til marga mismunandi leiki innan þessa ramma, þú ert alltaf í lifandi samskiptum við aðra félaga.“ Þeir segja að þetta sé í fyrsta skipti sem þetta hafi verið gert en fram að þessu hafi tæknin og nethraðinn ekki geta stutt þessa tegund leikja. „Teatime eru ekki að gera þess leiki allir sjálfir heldur erum við að vinna með leikjafyrirtækjum út um allan heim við búa til leiki sem nota þessa tækni. En ef þetta gengur vel eru vaxtamöguleikarnir miklu miklu meira heldur en á QuizUp,“ segir Þorsteinn. Hann segir að vel hafi gengið að fá fjárfesta að fyrirtækinu nýlega og margir þeirra séu jafnvel þeir sömu og fjárfestu í Plain Vanilla, þrátt fyrir að QuizUp hafi ekki gengið að óskum. „Þeir gera sér grein fyrir því að það umhverfi sem þeir fjárfesta í, þetta tækniumhverfi, að stærsti hluti fjárfestinga gengur ekki eftir.“

Teatime vinnur nú með þremur til fjórum leikjafyrirtækjum og búist er við að nokkuð margir leikir komi á markað í ár. Gunnar Hansson ræddi við Þorstein B. Friðriksson og Ými Örn Finnbogason í Mannlega þættinum.