Söngkonan Jófríður Ákadóttir, eða JFDR eins og hún kallar sig, hefur verið að gera tónlist síðan hún var fjórtán ára og spilað í hljómsveitum eins og Samaris og Pascal Pinon.

Undanfarið hefur hún verið að semja tónlist og spila meira ein, að því tilefni kíkti hún í Stúdíó 12 og tók tvö lög áður en hún hélt af stað í örlitla heimsreisu. 

Jófríður gaf út sína fyrstu plötu undir listamannsnafninu JFDR, Brazil, fyrir tveimur árum en síðan þá hafa komið út þó nokkur lög. Hún hefur verið í hljómsveitunum Samaris og Pascal Pionon og segir það vissulega vera öðruvísi áskoranir að vera sóló. „Það er meira frelsi og maður getur ráðið svolítið tempóinu, en á sama tíma er þetta líka svolítið einmanalegt.“

Hún segir að það sé öðruvísi að taka ákvarðanir þegar maður sé einn miðað við það að vera í hljómsveit þar sem maður vinnur meira í liði. „Maður finnur meira fyrir sínum styrkleikum og veikleikum þegar maður er einn, þá er maður alltaf að horfast í augu við það sem maður er góður í og það sem maður er ekki góður í.“

Hingað til hefur Jófríður mestmegnis verið að spila í útlöndum og um þessar mundir er hún stödd í hálfgerðri heimsreisu þar sem hún er að spila í Japan, Ástralíu og Nýja Sjálandi. Hún hefur þó verið að spila í auknu mæli á Íslandi og enda geta því fylgt miklir kostir. „Það er auðvelt að framkvæma hluti hér þegar maður þekkir fólk og sömuleiðis auðvelt að upplifa það að það gangi vel.“ 

Hlustaðu á viðtalið við Jófríði í spilaranum hér fyrir ofan.