Fátækt er skýr afleiðing af pólitískum ákvörðunum, segir Ásta Þórdís Skjalddal Guðjónsdóttir frá Pepp, samtökum fólks í fátækt. Hún telur að staðan hafi versnað mikið síðustu ár hvað varðar fjölda og stöðu þeirra sem búa við fátækt. Hjördís Kristinsdóttir frá Hjálpræðishernum segir að í ár hafi tæplega 200 manns sótt um jólastyrk þaðan. Þær segja einmanaleika og valdaleysi fylgja því að búa við fátækt og því sé valdefling þessa hóps gríðarlega mikilvæg.

Miklu meira en skortur á peningum

Ásta Þórdís og Hjördís ræddu um fátækt á Íslandi í Morgunútvarpi Rásar 2. Þar sagði Ásta Þórdís samtökin Pepp stuðla að valdeflingu þeirra sem búa við fátækt og ljá þeim rödd út í samfélagið.

„Þetta er hópur sem upplifir sig mjög valdalausan. Þó það sé erfitt að vera peningalaus þá eru margir sem hafa upplifað það að vera blankir um tíma, en fátækt er miklu meira en skortur á peningum. Það er talað um það samkvæmt Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni að það sé fjárhagshliðin, tekjur lífsstíll og svo aðstæður í vinnu eða skóla. Svo er það mannlega hliðin, og það er rétturinn til valda og áhrifa í samfélaginu. Síðan er það félags- og menningarlega hliðin, það er staðan og virðingin í samfélaginu. Fátækt hefur í för með sér mikið óöryggi og varnarleysi og það þarf að taka á þessu á mismunandi sviðum til þess að mæta þessu fólki. Þessi hópur upplifir það að það sé enginn sem hlustar og fólk er líka mikið félagslega einangrað því það fylgir fátæktinni."

Staðan á húsnæðismarkaði slæm

Ekki liggja fyrir nýjar tölur um fátækt, segir Ásta Þórdís, en í upplýsingum frá 2014 er talað um rúmlega sex þúsund manns sem búi við fátækt á landsvísu.

„Hópurinn breytist alltaf aðeins. En því miður þá upplifi ég það þannig að staðan hafi versnað mikið síðustu ár. Það hafa ekki verið neinar launahækkanir sem neinu nemur hjá þeim sem eru útivinnandi og búa samt við fátækt. Staðan á húsnæðismarkaðnum hefur versnað þannig að fólk verður alltaf fastari og fastari í þessari gildru. Þeir sem eru á leigumarkaðnum eru nánast í vonlausri stöðu því að harkan þar er gríðarleg og fólk er að borga mjög háar upphæðir fyrir jafnvel mjög litlar og óvistlegar íbúðir." Þá hafi öryrkjar ekki fengið aukningu sem neinu nemi.

Kemst aldrei af umræðustiginu

Hjördís segir það hversu mikið fólk leggur á sig til að fá tíu þúsund króna jólastyrk frá Hjálpræðishernum sýna hversu bág kjör þeirra eru.

Þær eru sammála um að fátækt sé skýr afleiðing af pólitískum ákvörðunum. Þar sé eins og málið komist aldrei af umræðustiginu. „Það er hlustað og maður finnur hluttekningu en svo gerist ekkert meira. Þá upplifir maður enn og aftur þetta valdaleysi og vonbrigði."