„Mér finnst ég vera staddur í hálfgerðum fáránleika,“ sagði Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings, þegar hann bar af sér sakir um innherjasvik í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. Hreiðar benti á að hann væri ákærður fyrir innherjasvik með því að selja hlutabréf í sinni eigu til félags sem hann átti alfarið sjálfur.
Þetta kallaði hann „sögulegt á heimssögulegan mælikvarða“, enda vissi hann ekki til þess að nokkru sinni fyrr hefði neinn verið ákærður fyrir innherjasvik þegar báðir aðilar viðskiptanna bjuggu augljóslega yfir sömu upplýsingum. Þannig virki ekki reglur um innherjaviðskipti og innherjasvik. „Ég hef aldrei hitt neinn sem er þeirrar skoðunar,“ sagði Hreiðar, hvorki innanlands né erlendis. Hann sagði það að nýta sér upplýsingar sem aðrir hafa ekki sé álitið versta brotið á hlutabréfamarkaði og sé svívirðilegt. Ekki hafi verið um slíkt að tefla í þessu tilviki.
Aðalmeðferð hófst í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun í máli ákæruvaldsins gegn Hreiðari Má Sigurðssyni og Guðnýju Örnu Sveinsdóttur fyrir umboðs- og innherjasvik. Þetta er síðasta hrunmálið sem ákært var í og fimmta málið gegn Hreiðari, sem samtals hefur hlotið sjö ára fangelsisdóma.
Ákært fyrir umboðssvik
Ákæra í málinu var gefin út 19. september 2016 og var sú síðasta sem Héraðssaksóknari gaf út í hrunmáli. Í málinu er Hreiðar, sem var forstjóri Kaupþings, ákærður fyrir umboðssvik með því að hafa í ágúst 2008 látið bankann lána eignarhaldsfélagi í hans eigu, Hreiðari Má Sigurðssyni ehf., 572 milljónir króna án samþykkis stjórnar bankans eða fullnægjandi tryggingar fyrir láninu. Lánið var notað til að kaupa af Hreiðari sjálfum, á markaðsvirði, bréf í bankanum sem hann hafði keypt á grundvelli kaupréttarsamnings fyrir mun lægri upphæð, 246 milljónir. Deilt er um hvert mismunurinn rann
„Gerirðu þér grein fyrir hvert peningarnir fóru, Finnur?“ spurði Hreiðar og vísaði til Finns Þórs Vilhjálmssonar saksóknara. Hreiðar bætti því svo við að hver einasta króna af mismuninum, 324 milljónum, hefði runnið í ríkissjóðs til uppgjörs á skattaskuld sem stofnaðist til þegar hann nýtti kauprétt sinn og flutti bréfin í félagið. Fjármagnstekjuskattar hafi einnig verið þar undir. Stjórn bankans hefði mælt fyrir um það að bankinn skyldi lána þeim sem neyttu kaupréttar fyrir sköttunum sem þeir þyrftu að greiða.
Hreiðar sagði furðu sæta að skjal um þá samþykkt stjórnarinnar skyldi ekki hafa ratað inn í umfjöllun í ákæru saksóknara og sagðist jafnframt ósáttur við að þessari lykilstaðreynd hefði verið haldið frá vitnum í málinu við yfirheyrslur hjá saksóknara. Auðvitað verði allir hvumsa þegar þeir heyri að hann hafi fengið fullt af peningum í vasann út úr viðskiptunum, viti fólk ekki að þeir peningar hafi verið hugsaðir til greiðslu skatta.
Finnur saksóknari sagði að vissulega sýndu gögn málsins að einhver hluti fjárins hefði runnið til að greiða skatt, en Hreiðar sagði þetta sýna að Finnur og kollegar hans hefðu ekki rannsakað málið nægilega vel, enda hefði ekki bara hluti fjárins farið í skattgreiðslur heldur allt. „Það skiptir öllu máli,“ sagði Hreiðar. „Runnu þessir peningar til mín eða eitthvert annað?“
Hreiðar fullyrti líka að hann hefði einfaldlega verið í hlutverki lántaka í þessum viðskiptum við Kaupþing en ekki lánveitanda, þrátt fyrir að hafa verið forstjóri bankans. Hann hafi ekkert skipt sér af lánveitingunum til sjálfs sín eða gefið fyrirmæli um þau, enda hafi hann ekki talið sé það heimilt og ekki sitt hlutverk.
Einnig ákærður fyrir innherjasvik
Hreiðar er einnig ákærður fyrir innherjasvik. Hann hafi á þessum tíma búið yfir innherjaupplýsingum um að markaðsverð bréfa í Kaupþingi hafi þarna verið mun hærra en efni stóðu til vegna langvarandi markaðsmisnotkunar hans og annarra með bréf í bankanum árið á undan. Hreiðar hefur hlotið dóm fyrir þátt sinn í þeirri markaðsmisnotkun. Hann hafi því vitað betur en að rétt væri að selja félagi sínu bréfin á skráðu markaðsvirði, sem hafi í raun verið allt of hátt.
Hreiðar sagði hins vegar fullkomlega eðlilegt að selja félaginu bréfin á markaðsvirði og að annað hefði raunar verið ómögulegt, skattayfirvöld og Kauphöllin hefðu aldrei leyft það.
Hreiðar hefur nú lokið skýrslugjöf sinni og svarað spurningum bæði Finns saksóknara og verjanda síns, Harðar Felix Harðarsonar. Næst verður tekin skýrsla af Guðnýju Örnu, sem var fjármálastjóri Kaupþings. Hún er ákærð fyrir hlutdeild í umboðssvikum Hreiðars Más.
Að því loknu verða teknar skýrslur af vitnum. Saksóknari og verjendur flytja svo mál sitt á morgun.