Fimmtán ára sænsk stúlka sagði ráðamönnum til syndanna á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna. Hún hefur vakið athygli víða um heim fyrir að mótmæla aðgerðarleysi í umhverfismálum.
Greta Thunberg mætir samviskusamlega fyrir utan þinghúsið í Svíþjóð hvern föstudag og mótmælir. Henni þykir ráðamenn ekki beita sér nógsamlega í loftslagsmálum. Nú er hún komin til Póllands til að segja valdhöfum til syndanna. „Ég hef hitt stjórnmálamenn sem vita ekki neitt um hættuástandið í loftslagsmálum. Þegar ég tala við þá byrja þeir að gráta. Þeir vita ekki hversu mikil völd þeir hafa, hvað þeir gætu gert mikið en þeir kjósa að gera ekkert. Ég held að í framtíðinni munum við líta til baka og annaðhvort hlæja að þeim eða hata þá,“ sagði Greta.
Ráðstefnan stendur í 2 vikur, fram til 14. desember. Hópur íslenskra sérfræðinga er kominn til Póllands, en Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra fer þangað um næstu helgi. Í dag lagði aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna áherslu á mikilvægi endurnýjanlegra orkugjafa.