Ísland keppir á Evrópumótinu í hópfimleikum sem fram fer í Slóveníu. Ísland sendir tvö lið til keppni í fullorðinsflokki, kvennalið og blandað lið, og tvö lið í unglingaflokki, stúlknalið og blandað lið. Kvennaliðið hefur í tvígang hampað Evrópumeistaratitlinum en missti hann í hendur Svía á síðasta Evrópumóti fyrir tveimur árum og nú á að vinna titilinn til baka.
Gera þurfti breytingu á kvennaliðinu um helgina vegna meiðsla og færði Tinna Ólafsdóttir sig úr stúlknaliðinu í kvennaliðið og varð hún því að vera fljót að læra á rútínur kvennaliðsins.
Lið Íslands lögðu af stað til Slóveníu í dag en mótið hefst á miðvikudag og verða undankeppnir á miðvikudag og fimmtudag sýndar í beinni útsendingu á RÚV.is. Úrslit eru svo á föstudag og laugardag og verða öll úrslit sýnd beint á RÚV.