Fíkniefnaverksmiðja sem spænska lögreglan lokaði á dögunum var sú tæknilegasta sem fundist hefur í Evrópu. Svo virðist sem tæknifræðingar og landbúnaðarsérfræðingar hafi komið að hönnun hennar og smíði. Íslenskur maður leigði húsnæðið þar sem fíkniefnaframleiðslan fór fram.

Spænska lögreglan hefur handtekið fjóra Íslendinga í tengslum við rannsókn á einni stærstu marijúanaverksmiðju sem fundist hefur í Evrópu. Götuvirði efna, sem ráðgert var að senda á markað frá verksmiðjunni í hverjum mánuði, nemur um 30 milljörðum íslenskra króna.

Spænskir fjölmiðlar í Murcia-héraði, þar sem kannabisverksmiðjan var staðsett, segja hana þá háþróuðustu sinnar tegundar sem fundist hafi í Evrópu. Svo virðist sem tæknifræðingar og landbúnaðarsérfræðingar hafi komið að hönnun hennar og smíði. Segja þeir að kæli-, lýsingar- og vökvunarbúnaður verksmiðjunnar sé metinn á rúma milljón evra, andvirði rúmlega 140 milljóna króna.

Verksmiðjan var í iðnaðarhverfi í Molina de Segura norðan við Murcia, sem er skammt frá Alicante á austurströnd Spánar.
Óregla á rafmagni og hita í öðrum fyrirtækjum í hverfinu vakti athygli lögreglunnar á kannabisverksmiðjunni. Kom þá í ljós að húsið hafði verið tekið á leigu með það að yfirskini að þróa þar einangrunarefni. Hins vegar höfðu ekki verið gerðir neinir samningar um rafmagn og hita og höfðu eiturlyfjaframleiðendurnir svindlað sér inn á kerfið og stolið rafmagni og hita.

58 ára gamall Íslendingur er skráður sem leigutaki húsnæðisins. Hann var handtekinn í aðgerðum lögreglunnar, sem og sjö Hollendingar. Síðar voru tveir Íslendingar handteknir þegar þeir voru að flýja svæðið í bíl og fjórði Íslendingurinn var svo handtekinn á flugvellinum í Alicante á leið til Íslands.

Spænskir fjölmiðlar segja að sex þúsund plöntur hafi verið gerðar upptækar í verksmiðjunni. Á vef La Verdad í Murcia segir að rannsókn málsins bendi til þess að þessi fíkniefnahringur hafi verið afar vel skipulagður og fjársterkur. Áætlað var að aka eiturlyfjunum til Hollands og að mánaðarleg afköst verksmiðjunnar yrðu um 10 tonn af maríjúna. Götuverð þess á Íslandi er um 30 milljarðar króna.

Hvorki lögreglan í Murcia né íslenska lögreglan vildu veita fréttastofu upplýsingar um málið þegar eftir því var leitað í dag.