Í kvöld fóru fram fimm leikir í Coca Cola-bikarkeppni karla í handbolta en alls fóru sex lið þó áfram þar sem Þróttur Vogum mætti ekki til leiks gegn Þrótti (frá Reykjavík). Haukar unnu ÍR í mögnuðum leik á Ásvöllum. Fram vann Aftureldingu með fjórum mörkum í Safamýri, Selfoss vann KA á Akureyri, ÍBV vann Fjölni í Grafarvogi og að lokum vann FH góðan sigur á HK í Kópavogi

Myndskeið úr Haukar - ÍR, Fram - Afturelding og KA - Selfoss má sjá hér að ofan.

Haukar 25 - 23 ÍR

Það kom verulega á óvart að Bjarni Fritzon, þjálfari ÍR-inga, væri í byrjunarliði Breiðhyltinga í kvöld en alls vantaði sjö leikmenn í leikmannahóp liðsins vegna meiðsla. Einnig var Björgvin Hólmgeirsson á varamannabekk liðsins.

Góð byrjun ÍR
Þetta virtist hafa góð áhrif á ÍR liðið sem komst snemma í 3-1. Þá vöknuðu heimamenn hins vegar og skoruðu þeir næstu fimm mörk leiksins, staðan orðin 6-3. 

Sóknarleikur ÍR var til vandræða í fyrri hálfleik en það var aðallega stórbrotinni frammistöðu Björgvins Páls Gústavssonar að þakka en hann varði 12 skot í fyrri hálfleik á meðan hann fékk aðeins á sig níu. Staðan 12-9 Haukum í vil í hálfleik.

Breiðhyltingar neituðu að gefast upp
ÍR-ingar byrjuðu aftur af krafti í síðari hálfleik og tókst þeim að minnka muninn í eitt mark. Aftur hrukku heimamenn í gírinn og breyttu stöðunni í 19-14. Það virtist sem þeir ætluðu að stinga gestina úr Breiðholtinu af en ÍR-ingar eru ekki þekktir fyrir að gefast upp. Þeim tókst að minnka muninn í eitt mark þegar rúmar tíu mínútur voru til leiksloka, staðan þá 20-19 lokamínútur leiksins reyndust æsispennandi.

Björgvin Páll kom Haukum hins vegar þremur mörkum yfir stuttu síðar 22-19 þegar Grétar Atli ætlar að reyna lesa sendingu fram völlinn og Björgvin hendir knettinum þess í stað rakleiðis í netið. ÍR-ingar neituðu hins vegar að gefast upp og héldu í við Haukana þangað til lokaflautið gall. Lokatölur 24-23 heimamönnum í vil og ljóst að Haukar verði í pottinum þegar dregið verður í 8-liða úrslit Coca Cola-bikarsins.

Fram 30 - 26 Afturelding

Fram sat hjá í fyrstu umferð bikarkeppninnar en Afturelding vann varalið ÍBV, ÍBV 2, örugglega og tryggði sér þar með sæti í 16-liða úrslitum. Framarar fengu skell gegn Stjörnunni í síðustu umferð úrvaldseildarinnar en liðið situr í níunda sæti með 8 stig. Afturelding situr hins vegar í sjöunda sætinu með 11 stig.

Jafnt var á með liðunum fyrstu mínútur leiksins og eftir rúmlega tíu mínútna leik var staðan 4-4. Framarar náðu svo þriggja marka forystu þegar um tíu mínútur voru eftir af fyrri hálfleik og slakur kafli Mosfellinga varð til þess að Framarar voru með 5 marka forystu í hálfleik, 14-9.

Aftureldingu gekk erfiðlega að saxa á forskot Framara framan af síðari hálfleik og svo fór að Fram vann fjögurra marka sigur, 30-26.

KA 22 - 29 Selfoss

Fyrir norðan tók efsta lið 1. deildar, KA, á móti Selfossi sem situr í fjórða sæti Olís-deildarinnar en Patrekur Jóhannesson tók við þjálfun Selfyssinga af Stefáni Árnasyni sem nú þjálfar KA.

KA-menn veittu Selfyssingum fína mótspyrnu í fyrri hálfleik en það voru þó gestirnir að sunnan sem leiddu með fjórum mörkum í leikhléi, 16-12. Selfyssingar juku forskotið enn frekar í síðari hálfleik og þeir unnu að lokum sjö marka sigur, 29-22.

Fjölnir 23 - 31 ÍBV

ÍBV gerði góða ferð í Grafarvoginn í kvöld en liðið vann mjög öruggan átta marka sigur á Fjölni og er þar með komið í 8-liða úrslit bikarsins. Theodór Sigurbjörnsson var markahæstur hjá ÍBV með átta mörk en Brynjar Loftsson skoraði einnig átta mörk í liði Fjölnis.

HK 25 - 37 FH

FH átti ekki í miklum vandræðum með HK í Kópavoginum í kvöld og vann á endanum þægilegan 12 marka sigur. Ísak Rafnsson skoraði átta mörk fyrir FH á meðan Kristófer Dagur Sigurðsson skoraði sex fyrir HK.

Þróttur - Þróttur Vogum

Einn leikur átti svo að fara fram í Laugardalshöllinni í kvöld, viðureign Þróttar Reykjavíkur og Þróttar Vogum í 16-liða úrslitunum. Lið Þróttar Vogum er skipað gömlum handboltakempum sem margir hverjir gátu ekki mætt til leiks þetta fimmtudagskvöldið þar sem margir þeirra eru þjálfarar eða starfsmenn annarra liða sem einnig voru í eldlínunni í kvöld.

Þróttur Reykjavík þurfti því aðeins að mæta í Laugardalshöllinna til þess að þeim yrði dæmdur sigur í leiknum. Allir voru þeir komnir þegar klukkan sló hálf átta og verður Þróttur Reykjavík því í pottinum þegar dregið verður í 8-liða úrslit á morgun.