Samdráttur í ferðaþjónustu og erfiðleikar í flugrekstri hafa mest áhrif á veikingu krónunnar. Þetta segir Seðlabankastjóri. Ástæða sé til að hafa áhyggjur af því hvaða áhrif kjarasamningar hafa á jafnvægi í þjóðarbúinu. Krónan hefur ekki verið veikari í rúm tvö ár.

Íslenska krónan hefur veikst um 11% síðan í lok júlí. Gengisvísitalan er komin í 177, en því hærri sem hún er, því veikari er krónan. Svona veik hefur krónan ekki verið í rúm tvö ár, eða síðan í ágúst árið 2016.

„Ég held að aðalskýringin sé sú að það er í gangi endurmat á efnahagsástandinu og horfunum. Myndin hefur verið að breytast eins og hefur ekki farið fram hjá neinum. Það er að hægja á í ferðaþjónustunni, það hafa verið erfiðleikar í flugrekstri, enda hefur olíuverð hækkað mikið frá því fyrir ári síðan,“ segir seðlabankastjóri.

Megum við búast við frekari veikingu krónunnar? „Það þarf ekkert endilega að vera. Það er ekkert útilokað, það fer eftir því hver framvindan verður í þjóðarbúskapnum. Verður frekari hækkun á olíuverði og alþjóðleg þróun mun, hún snúast gegn okkur? Hvernig fara kjarasamningarnir? Hvernig gengur í ferðaþjónustunni? Hvernig gengur í flugrekstrinum? Allt þetta hefur áhrif á það hvernig gengi krónunnar þróast eins og það á að gera og þess vegna er ekki hægt að útiloka slíkt en það þarf ekkert endilega að vera.“

Kröfur fyrir kjaraviðræður ljósar í nokkra mánuði

Már segir að það kunni að vera að kjaraviðræður hafi áhrif á krónuna. Hins vegar hafi kröfurnar legið ljósar fyrir þegar krónan var að styrkjast. „Það lá fyrir í júní þegar krónan var miklu sterkari. Það kann að vera að þetta samspil, að við séum að færast nær annars vegar, og allir eru að átta sig á því að það sé að myndast nýtt jafnvægi með minni spennu í þjóðarbúinu. Að þetta, í samspili sínu, magni upp einhverja svartsýni sem er að hluta til réttlætanleg en gæti verið kannski að ganga of langt.“

Már segir ekki ástæðu til að hafa áhyggjur af þróun gengisins að undanförnu en þó sé ef til vill ástæða til að hafa áhyggjur af því hvernig til takist að ná fótfestu í nýju jafnvægi í þjóðarbúinu og kjarasamningar spili inn í það. Enginn geti sagt nákvæmlega til um það. „En krónan hún bara hækkaði þarna á ákveðnu árabili þegar efnahagsþróunin þrýsti henni upp og hún hjálpaði þannig til við að hægja á ósjálfbærum vexti og nú er hún komin í annað ástand.“

Veiking gengis ekki endilega fyrirboði verðbólgu

Aðspurður að því hvort hafa þurfi áhyggjur af verðbólgunni segir hann það annað mál. Þó að gengið hreyfist til eða frá tímabundið þurfi það ekki endilega að valda langvarandi verðbólgu. „Við höfum dæmi frá Noregi, Nýja Sjálandi og Ástralíu þar sem gengi hefur veikst verulega án þess að það sé að slá mikið út í verðbólguvæntingum til langs tíma. Það er bara annað mál. Það kemur auðvitað einhver hækkun í verðbólgu tímabundið en síðan ætti hún að hjaðna niður að markmiðinu aftur, sérstaklega ef spenna er búin að slást í slaka og fasteignaverð og hækka og svo framvegis. Þannig að við verðum bara að bíða og sjá hvernig það þróast.“

Þið hafið áður gripið inn í til að koma í veg fyrir veikingu krónuna, hvers vegna ekki núna? „Við höfum ekki gripið inn í til að koma í veg fyrir veikingu krónunnar vegna þess að ef að krónan er að veikjast vegna þess að undirliggjandi ástæður breytast þá er það bara eins og að berja öldurnar. Við höfum gripið inn í til að koma í veg fyrir svona mjög óreglulegan markað og tímabundna spírala til að draga úr miklum skammtímasveiflum.“ Þó að krónan hafi lækkað mikið í nokkra daga þá hafi verið álitamál hvort það kæmi til þess. Síðan hafi krónan hækkað í dag og í gær og hafi það tilefni verið farið.