Mikið aftakaveður gerði skyndilega við Álftavatn á Fjallabaksleið í gærkvöldi. Það var það mikið að nokkur tjöld fuku og koma þurfti 80 ferðamönnum af tjaldsvæðinu í skjól í fullbókaðan skálann við Álftavatn.

Stefán Jökull Jakobsson yfirskálavörður hjá Ferðafélagi Íslands, segir að ferðamennirnir hefðu verið varaðir við hvassviðri og rigningu. Veðrið varð mun verra en búist var við. „Ég hef engan svo sem vindmæli hértil þess að segja hvað það voru margir metrar, annað en að ég er rétt um 100 kg og ég fauk til og frá í hviðunum. Klukkan 21 - þetta var eins og slegið hefði verið á klukkuna - þá gerir þetta svakalega veður og tjöld fara að rifna og fjúka hér til.“

Stefán Jökull segir að hann og skálaverðir við Álftavatn og nokkrir menn frá hjálparsveit skáta hafi farið í það að koma fólkinu til aðstoðar. Fella hafi þurft tjöld hjá um 50 erlendum ferðamönnum og koma þeim inn í skála. „Mjög mikil hræðsla greip um sig hjá fólkinu. Mjög fáir af þessum útlendingum höfðu upplifað svona rok. Það var bara neyðaróp í fólkinu um allt tjaldsvæðið, þar sem við vorum að reyna að hjálpa því að komast upp. Í mestu hviðunum reyndi maður að standa vel upp í vindinn og halda við fólk og búnað og koma því í skjól,“ segir Stefán Jökull. 

Stefán Jökull segir að þar sem skálinn hafi verið fullbókaður hafi verið 80 gestir komnir í hann umfram gistipláss. Því hafi verið haft samband við lögregluna á Hvolsvelli og fengið pláss fyrir um 50 ferðamenn í Heimalandi undir Eyjafjöllum þar sem fólkið dvaldi í nótt. Svo vel vildi til að bílstjóri frá rútufyrirtækinu Sæmundi Sigmundssyni í Borgarnesi hafi verið þarna með gönguhóp og hann hafi samþykkti að aka hópnum í Heimaland.