Ragnhildur Hólmgeirsdóttir sagnfræðingur fjallar um ferðamennsku á Íslandi fyrr á öldum. Álit ferðamanna sem hingað komu á 19. öld var á Íslendingum var misjafnt segir hún. „Sumir hrifust af hinu íslenska landbúnaðarsamfélagi, gestrisni íbúanna og óvenju góðri latínukunnáttu, svo eitthvað sé nefnt. Aðrir náðu ekki upp í nefið á sér af hneykslun yfir því hvað Íslendingar væru skítugir, latir og ágjarnir.“
Eitt sinn var Ísland einstakur, sjaldgæfur og eftirsóknarverður áfangastaður fyrir ferðamenn. En mikil ferðabókaskrif um landið, aukin velmegun í Evrópu og bættar samgöngur urðu til þess að á þessu varð gjörbreyting. Ísland komst á kortið og ferðamenn hættu að vera sjaldgæf og óvenjuleg sjón. En um leið missti landið ævintýraljómann í augum margra, ferðamannastraumurinn spillti íslenskum siðum og venjum og nágrenni helstu ferðamannastaða fylltist af rusli og sorpi.
Þessi breyting gerðist þó ekki í kjölfar eldgossins í Eyjafjallajökli árið 2010, heldur átti hún sér stað á síðari hluta 19. aldar. Engum núlifandi Íslendingi myndi þykja fjöldi ferðamanna á landinu árið 1875 neitt sérstaklega tilkomumikill, en það er engu að síður á þessum tíma sem ferðamannastaðurinn Ísland mótaðist. Landið breyttist þó ekki í einu vetfangi úr því að vera helst sótt af erlendum fiskimönnum yfir í það að verða skyndilega vinsæll áfangastaður evrópskrar borgarastéttar.
Túristar eða vísindamenn?
Það voru erlendir vísindamenn, oftast nær breskir, sem ruddu brautina á 18. öld og þessir vísindaleiðangrar héldu áfram næstu hundrað árin eða svo. Vísindalegur árangur þeirra var samt kannski ekki sérlega mikill. Leiðangursmenn áttu ekki kost á miklum upplýsingum um landið áður en þeir komu, sumir héldu til dæmis að hér væri jafnan hægt að virða fyrir sér virk eldgos, svo eitthvað sé nefnt. Því voru rannsóknir þeirra ekki mjög markvissar. Oftar en ekki var hápunktur þessara leiðangra gönguferð upp á Heklu og handahófskenndar mælingar við Geysi. Frá þessum ferðum er því til mun meira af glæsilegum landslagsmyndum heldur en útgefnum vísindagreinum.
Vísindamennirnir voru brautryðjendur hinna eiginlegu ferðamanna og það voru skrif þeirra sem lokkuðu forvitna Evrópubúa hingað til lands, þegar allir voru orðnir leiðir á að heimsækja París, Róm og Feneyjar.
Upphaf Gullna hringsins
Undir lok 19. aldar voru allt að 17 áætlunarferðir póstskipa til landsins, auk þess sem sumir auðugir ferðalangar leigðu sér sitt eigið gufuskip til einkanota. Langar helgarferðir til Íslands eru því alls engin nýlunda, þar sem sumir ferðamenn létu sér nægja örfáa daga í landi. Og hvert voru þessir frumferðamenn að fara? Jú, þeir fóru á Þingvelli, Gullfoss og Geysi. Dagskrá erlendra ferðamanna í dag ræðst því að töluverðu leyti af áhugasviði vísindamanna á 18. öld, sem mótuðu þessa ferðamenningu. Stærsta breytingin er kannski sú að í dag getur einbeittur túristi brunað Gullna hringinn á einum dagsparti, en í enskri ferðahandbók frá 1893 er mælt með 12-16 dögum fyrir herlegheitin. Innifalið í því var að vísu fjallganga á Heklu, sem hefur fyrir lifandis löngu dottið úr tísku.
Þó að þessi kjarni íslenskra ferðamannastaða hafi haldist að mestu óbreyttur frá upphafi, í ein 250 ár, þá hafa orðið miklar sveiflur í viðhorfi ferðamanna til þessara staða, og þau viðhorf hafa síðan átt í flóknu samspili við upplifun Íslendinga af náttúru og sögu síns eigin lands. Gullfoss var til að mynda alger nýjung í ferðahandbókinni frá árinu 1893. Fimmtán árum fyrr hefði ekki nokkurri sálu dottið í hug að það væri ómaksins vert að leggja þangað leið sína. Þingvellir þóttu heldur ekkert sérlega athyglisverðir á 18. öld, en mikilvægi Þingvalla sem sögustaðar óx jafnt og þétt í augum Íslendinga og ferðamanna eftir því sem leið á öldina.
Tískubylgjur, nátúrufegurð og villimennska
Í augum vísindamannanna á 18. öld og fyrri hluta þeirrar 19., þá voru það Geysir og Hekla sem voru langmikilvægustu staðirnir. Engin almennileg ferðasaga gat verið án skilmerkilegrar lýsingar á öllum hættunum og erfiðleikunum sem höfundurinn lenti í á leið sinni upp Heklu, eða þeirri andaktugu lotningu sem hann fylltist þegar hann fylgdist með Geysi. En eins og oft vill verða með hluti sem eru lofaðir í hástert, þá ollu bæði Geysir og Hekla seinni ferðamönnum óttalegum vonbrigðum. Geysir hætti að gjósa og gönguferðin á Heklu varð einhvern veginn alltaf minna og minna spennandi, þar til hún þótti helst hæfa unglingsstúlkum í sunnudagsgöngu.
Almennt séð færðist Ísland þó hægt og bítandi frá því að þykja skelfilega ljótt land um miðbik 18. aldarinnar, til þess að þykja bæði tilkomumikið og fagurt þegar komið var fram á þá 20. Álit ferðamanna á Íslendingum var hins vegar öllu flóknara og tók ekki jafn miklum framförum á tímabilinu. Sumir hrifust af hinu íslenska landbúnaðarsamfélagi, gestrisni íbúanna og óvenju góðri latínukunnáttu, svo eitthvað sé nefnt. Aðrir náðu ekki upp í nefið á sér af hneykslun yfir því hvað Íslendingar væru skítugir, latir og ágjarnir. Staðalímyndin um hinn göfuga villimann var aldrei langt undan í hugum ferðalanganna, og Íslendingar þóttu ýmist mæta þessum væntingum um ósnortin náttúrubörn ágætlega, eða bregðast þeim gjörsamlega.
Frammi fyrir auga gestsins
Það má teljast mikil mildi að ferðamenn í dag séu ekki alveg jafn skoðanaglaðir þegar kemur að samfélagsástandi þeirra þjóða sem þeir heimsækja, í það minnsta ekki þegar þeir heimsækja Ísland. Auðvitað er það að einhverju leyti því að þakka að lífsskilyrði á Íslandi eru í dag mjög áþekk því sem gerist í heimalöndum þeirra ferðamanna sem hingað koma. Þeir hafa því einfaldlega mun minna að tala um á þessu sviði, hvort sem er af aðdáun eða ógeði. En þó skiptir viðhorfsbreyting og aukið umburðarlyndi líklega alveg jafn miklu. Ferðamenn í dag leyfa sér ekki sömu hnýsni og dómhörku, í það minnsta ekki þegar þeir ferðast innan Evrópu. Það eru ekki lengur neinir herramenn á stjákli að virða fyrir sér göfuga villimenn í gegnum einglyrni. Sem dæmi má nefna að engin ferðabók eða ferðasaga myndi í dag birta álíka mynd og breski höfundurinn John Rosse Brown gerði í bók sinni The Land of Thor árið 1867. Þar var teikning af íslensku heimili, þar sem allt var á rúi og stúi og börnin stympuðust og slógust á meðan faðinn horfði á í algerri uppgjöf. Þó eru slíkar uppákomur varla neitt óalgengari í dag en þær voru þá.
Það er erfitt að sjá fyrir endann á þeim breytingum sem orðið hafa í ferðamannaiðnaði á Íslandi síðastliðin tuttugu ár eða svo. Höfuðborgin og aðrir bæir laga sig að þörfum fólks sem gistir hér aðeins í nokkrar nætur, búðir fyllast af varningi sem enginn hefur þörf fyrir og íslenskan víkur fyrir ensku í almannarými. Það er erfitt að vera stöðugt í hlutverki gestgjafans, ekki síst fyrir land eins og Ísland sem er og hefur alltaf verið menningarlegt jaðarsvæði. Það má segja að flestar aðrar þjóðir geti horft á okkur úr valdastöðu sem okkur sjálfum býðst ekki. Augnaráð þeirra getur skilgreint okkur og við komumst ekki hjá því að spegla okkur í því, hvort sem okkur líkar betur eða verr. Sé tekið mið af öllum erlendu höfundum sem fyrr á öldum festu þá skoðun á blað að Íslendingar væru öðruvísi, skrítnari, smærri, þá er það kannski ekki skrítið að Íslendingar geti enn þann dag í dag, þegar fjöldi ferðamanna á hverju ári er meira en sexfaldur íbúafjöldi, ekki hætt að bera skjálfandi röddu upp spurninguna: So how do you like Iceland?