Breski grínistinn Jimmy Carr skemmtir á Íslandi í annað sinn næstu helgi en Carr er þekktur um allan heim fyrir kolsvartan húmor og einstaklega smitandi hlátur. Hann býr sig ekki sérstaklega undir sýningar sínar en hefur það að reglu að klæða sig í snyrtileg jakkaföt.

Jimmy Carr hefur stundað uppistand og grín í um tuttugu ár og farið í níu uppselda heimstúra þar sem tvær milljónir hafa sótt sýningar hans, í fjórum heimsálfum. Hann kemur fram í Háskólabíói í Reykjavík, líkt og hann gerði í sinni síðustu Íslandsdvöl og í Hofi á Akureyri. Sýningin hans nú kallast The Best Of, Ultimate, Gold, Greatest Hits World Tour og má lesa í gegnum titilinn að hann safni þar saman brotum af því besta af ferlinum og blandi saman við nýtt.

Carr er hér á ferð í annað sinn og segist hafa skemmt sér konunglega í fyrri heimsókninni. „Ég tók þennan ferðamannarúnt sem ætti öllu jafna að taka þrjá daga, á þremur klukkustundum. Ég sá goshveri og norðurljós, ég heimsótti vatnsaflsvirkjun sem er mögulega það besta sem maður gerir sem ferðamaður á Íslandi. Þið getið dýft ykkur eins mikið í þetta bláa lón og þið viljið en ég þekki mínar vatnsaflsstöðvar þegar ég sé þær,“ segir Jimmy Carr um undur Íslands.

Jimmy Carr ferðast mikið um heiminn og hvert sem hann fer er mikil eftirspurn eftir sýningum hans. Þrátt fyrir að framboð afþreyingar hafi stóraukist og fólk sæki efnið mest á netið virðist það ekki hafa áhrif á að fólk mæti á uppistand. „Auðvitað hefur þetta allt breyst. Grínistar geta ferðast um allan heiminn núna og fólk hefur betra aðgengi að afþreyingu, horft á Netflix og Youtube en kynnt sér um leið hvað það vill sjá í lifandi flutningi,“ segir Carr. „Svo geta auðvitað allir upplýst heiminn um sína skoðun á netinu. Ég elska það að fólk geti sagt sína skoðun, til dæmis að þeim líki þessi brandari en ekki hinn. Það er málfrelsi og fólk segir það sem það vill. Þegar kemur að afleiðingum brandara og gríns er lítið frelsi. Fólki er heimilt að segja að það sé ekki sammála ummælum og það er gott að það fái tækifæri til að segja sína skoðun en það sem ég er algjörlega mótfallinn er að ef samfélagsmiðlar geta þaggað niður í manni ef einhverjum einum líkaði ekki það sem maður sagði. Það er skrýtið,“ segir Jimmy Carr en hann er þekktur fyrir afar umdeilt grín.

Varðandi hans umdeildu brandara og þær byltingar sem hafa risið upp á samfélagsmiðlum, er hann spurður hvort þær hafi ekki haft áhrif á uppistandið? „Ég myndi segja í því samhengi að áhorfendur séu algjörir snillingar. Þeir ákveða yfir hverju má hlæja og ekki og hvað er við hæfi. Þú getur gert grín að umdeildum málum, því sem snertir samtímann og að þeim málum sem við sem samfélag höfum kannski ekki náð að greiða úr en áhorfendur ákveða hvað er við hæfi að hlæja að. Það er þó visst flækjustig ef einhver móðgast og sér sig knúinn til að skrifa um það í blöðin daginn eftir. Það er mikill munur á brandara seint að kvöldi í þúsund manna hópi og á sama brandara í blöðunum degi síðar,“ segir Jimmy Carr.

Grínistinn kann greinilega vel við sig á Íslandi og þekkir sínar vatnsaflsvirkjanir en þekkir Carr til íslenskra grínara, leikara eða annars listafólks hér á landi? „Ég var mikill aðdándi Sykurmolanna á sínum tíma en ég hef kannski ekki fylgst grannt með síðan þá en ég geri þó ráð fyrir að allir norðan megin við vegginn í Game of Thrones séu Íslendingar. Þið eruð hvítgenglar (White walkers), ekki rétt?,“ spyr Carr sposkur og vísar í illmenni í vinsælu þáttaröðinni Krúnuleikunum eða Game of Thrones. Loks segir Jimmy Carr að hann sleppi því að borða mikið áður en ég fer á svið. „Það er ekkert verra en meltingartruflanir í miðri sýningu. Ég reyndar klæði mig í jakkaföt fyrir hverja sýningu, þá lítur það alla vega út eins og ég sé í alvöru vinnu. Svo segi ég bara brandara í nokkra klukkutíma. Þetta er svona andstæðan við rokk og ról, þetta er eiginlega minnsta rokk og ról sem þú kemst í. Þú bíður eftir því að sýningin hefjist, fararstjórinn er ekki langt undan, stígur á svið og yfirgefur svæðið strax eftir sýningu. Það er enginn glamúr baksviðs, ef þú ert heppinn þá er tiltölulega hreinn hraðsuðuketill sem þú getur notað,“ segir Jimmy Carr að lokum. Frekari upplýsingar um uppistand Carr á Íslandi má finna hér.