Filmur, sem gætu verið frá síðari heimsstyrjöld, komu í troll humarveiðimanna á Faxaflóa í síðustu viku. Forstöðumaður Kvikmyndasafns Íslands hlakkar til að skoða filmurnar nánar, en þær gætu verið úr bandarísku herskipi sem sökk á Faxaflóa í síðari heimstyrjöld.

Á laugardaginn í síðustu viku urðu skipverjar á humarskipinu Fróða varir við aðskotahluti í trollinu; filmur sem komu upp með humrinum á Jökuldýpinu svokallaða, um 20 sjómílur suðaustur af Snæfellsjökli. Filmurnar virtust nokkuð heillegar. 

„Já við skoðuðum þær fyrst en sáum ekkert strax. Svo þegar við fórum inn í filmubunkann þá fór maður að sjá mannsmynd,“ segir Gísli Fannar Gylfason, skipverji á Fróða. Hann hefur þó ekki grænan grun um hvað leynist á filmunum. 

Því var brugðið á það ráð að kanna þessar dularfullu filmur nánar og fá sérfræðinga í málið.

„Þetta er svo forvitnilegt. Það hefur aldrei komið neitt viðlíka hingað inn í kvikmyndasafnið, eins og þetta. Kvikmyndir dregnar upp úr sjó. Það er í fyrsta skipti í 35 ára sögu kvikmyndasafnsins sem það gerist,“ segir Erlendur Sveinsson, forstöðumaður Kvikmyndasafn Íslands.

Þegar rammi úr einni filmunni er skoðaður nánari sjást þar þrír menn í hvítum skyrtum. Hvað í ósköpunum fundu skipverjarnir á Fróða?

„Við erum örugglega með bíómynd. Hún er svarthvít. Það er ljóstónn á henni þannig að þetta hefur verið fullbúin sýningarkópía sem gæti kannski verið frá þess vegna stríðsárunum, eða þar á eftir. Framundir 1950,“ segir Erlendur. 

Á stríðsárunum var töluverð skipaumferð um Faxaflóa. Árið 1942 var bandaríska herskipinu Alexander Hamilton sökkt af þýskum kafbáti og hefur flak þess legið í Faxaflóa síðan. Hamilton sökk þó nokkru sunnar en þar sem filmurnar fundust, en ekki er hægt að útiloka að þær séu úr herskipinu.

„Við kveiktum þarna í bút áðan. Hún gæti verið svona ákveðið millistig. Þetta er ekki hreinræktuð nítrat-mynd en þetta er ekki heldur kvikmynd sem ekki brennur. Acetate-filma, hún brennur ekki. Þannig að það bendir til áranna stríðslok og þar fram yfir,“ segir Erlendur.

Kvikmyndasafnið hefur tekið filmurnar til varðveislu og þrátt fyrir að þær hafi legið á hafsbotni í áratugi, gæti nánari skoðun á filmunum leitt í ljós hvaðan þær komu og hvaða skipi þær tilheyrðu.

„Það getur vel verið að það megi finna eitthvað út úr þessu. Ég er bara svolítið spenntur fyrir því að athuga það,“ segir Erlendur.