Fékk undanþágu frá meginreglu um uppreist æru

12.09.2017 - 14:32
Mynd með færslu
 Mynd: Facebook
Robert Downey, sem fékk uppreist æru í fyrra, fékk undanþágu frá almennri reglu um veitingu uppreist æru. Umsókn hans var tekin til meðferðar hjá dómsmálaráðuneytinu þrátt fyrir að ekki væru liðin fimm ár frá því að hann lauk afplánun.

Þetta kemur fram í úrskurði Úrskurðarnefndar um upplýsingamál vegna kæru fréttastofu RÚV.

Downey hlaut þriggja ára fangelsisdóm árið 2008 fyrir kynferðisbrot gegn fjórum barnungum stúlkum. Hann hóf afplánun í febrúar 2009. Í úrskurðinum kemur fram að Downey skili inn tilkynningu Fangelsismálastofnunar ríkisins um að hann hafi hafið reynslulausn í desember 2010. Downey sendir umsókn um uppreist æru til forseta Íslands þann 17. september 2014.

„Þegar sérstaklega stendur á“

Í bréfi Úrskurðarnefndar segir að af gögnum málsins verði ráðið að innanríkisráðherra veitti Roberti Downey uppreist æru á grundvelli þriðju málsgreinar 85. greinar almennra hegningarlaga, þar sem segir að ráðherra geti, þegar sérstaklega stendur á, vikið frá þeirri meginreglu að ekki sé unnt að veita uppreist æru fyrr en 5 ár eru liðin frá því að refsing er að fullu úttekin, fyrnd eða gefin upp. Ekki kemur fram hverjar þær sérstöku aðstæður eru.

Í úrskurðinum er bent á að í athugasemdum við lög sem heimila slíka undanþágu segir að beiting hennar myndi einkum koma til greina um svonefnd pólitísk brot og brot gegn valdstjórn, sem almenningur virðist líta talsvert öðruvísi á en brot gegn lífi manna og líkama, og heimildinni verði að beita með varúð.

Könnuðu ekki afstöðu viðkomandi

Í úrskurðinum kemur enn fremur fram að dómsmálaráðuneytið neitaði beiðni fréttastofu um gögn sem varða uppreist æru Roberts Downey, án þess hafa óskað afstöðu viðkomandi, það er hvort Downey eða meðmælendur hans settu sig á móti því. 

Ennfremur segir að af gögnum málsins verði ekkert ráðið um að umræddum einstaklingum hafi verið heitið trúnaði um vottorð sín eða þeir hafi á annan hátt haft réttmætar væntingar um að nöfn þeirra færu leynt.