Fatlaður maður sem var vistaður árum saman í fangelsi á níunda áratugnum, var læstur inni og leið eins og fanga, þótt hann væri frjáls. Hann segir að fjórir til sex fatlaðir hafi dvalið í fangelsinu. Dómsmálaráðherra hefur boðað manninn á sinn fund. Formaður Þroskahjálpar segir málið hreina hörmung.

Ólafur Hafsteinn Einarsson er 58 ára gamall. Hann er lögblindur, flogaveikur og með væga þroskahömlun. Árið 1986 var gripið til þess ráðs að vista hann í kvennafangelsinu að Bitru, þar sem hann dvaldi sem einskonar vinnumaður í fjögur ár. Þetta var gert með samþykki stjórnvalda. Ólafur segir að það hafi verið mjög erfið lífsreysla, að búa með föngum.

„Það var mikið talað um afbrot þeirra og annað. Manni fannst bara eins og maður væri sjálfur hlekkjaður niður í svaðið,“ segir Ólafur Hafsteinn.

En fannst þér þú vera frjáls á Bitru?

„Nei. Enginn okkar var frjáls.“

Leið þér bara eins og fanga?

„Já.“

Varstu læstur inni?

„Já. Á kvöldin.“

Hvað fannst þér um það?

„Mér fannst það bara hræðilegt. Ég var enginn afbrotamaður.“

Varðstu fyrir hótunum eða ofbeldi?

„Já. Miklu.“

Þá segist Ólafur ekki hafa fengið laun fyrir vinnu sína, auk þess sem örorkubæturnar hafi verið teknar af honum. Þá hafi honum meðal annars verið refsað með því að fá ekki að hitta foreldra sína.

„Höfum ekki hugmynd“

Bryndís Snæbjörnsdóttir, formaður Þroskahjálpar, segir það sláandi fréttir, að fötluðum hafi verið komið fyrir í fangelsi á þessum tíma.

„Mér finnst það bara hrein hörmung. Og ég er ekki einu sinni viss um að ég hefði keypt þennan söguþráð ef ég hefði verið að lesa skáldsögu. Mér finnst þetta svo absúrd,“ segir Bryndís.

Ólafur segir að fleiri fatlaðir hafi verið vistaðir í fangelsinu, líklega fjórir til sex. Bryndís segir að rannsaka verði málið.

„Já mér finnst full ástæða til að rannsaka það hvort það hafi verið. Þarna var verið að gera samninga við fjölskyldur um að þær veittu fötluðu fólki þjónustu án nokkurs eftirlits. Og þetta átti við fleiri tilfelli þótt þetta hafi ekki alltaf verið í fangelsum.“

Bryndís bendir á að í skýrslu um Kópavogshælið, sem kom út fyrir rúmu ári, hafi komið fram að stjórnvöld þyrftu að hafa frumkvæði að því að rannsaka hvar og hvernig fatlað fólk var vistað á þessum árum. Það hafi ekki enn verið gert. Margir hafi verið vistaðir á stöðum gegn vilja sínum. 

„Og við höfum ekki hugmynd um hvar fólk var vistað og við hvaða aðstæður á þessum árum,“ segir hún.

Ólafur óskaði eftir því fyrir tæpum mánuði að fá viðtal við dómsmálaráðherra. Erindinu var svarað í dag og hann fær viðtal á miðvikudaginn í næstu viku.

Hvað viltu að stjórnvöld geri?

„Rannsaki heimilin frá grunni, á landinu öllu.“

Viltu fá bætur vegna þess sem þú lentir í?

„Stjórnvöld verða að ákveða það.“

Bryndís segir að velta verði við hverjum steini í málinu.

„Mér finnst bara svo mikilvægt að við fáum einhvern botn í þessi mál. Þetta hangir yfir okkur eins og mara,“ segir hún.