Töluvert er um að farþegar Icelandair hafi samband við félagið, áhyggjufullir vegna þess að félagið notar eins þotur og fórst í Addis Ababa í gær og í Indónesíu í fyrra. Ekki hefur verið ákveðið að kyrrsetja vélar félagsins. Framkvæmdastjóri hjá Icelandair segir að viðhald og ferlar hjá félaginu hefðu líklega komið í veg fyrir sams konar slys á eins vél í fyrra.
Nítján flugfélög hafa kyrrsett um eitt hundrað Boeing 737 MAX 8 þotur sömu gerðar og þá sem fórst í Eþíópíu í gær. Allir um borð fórust, alls 157, og brak úr vélinni dreifðist um stórt svæði. Hlutabréf í bandaríska flugvélaframleiðandanum hríðféllu í dag. Þota sömu gerðar brotlenti við svipaðar aðstæður í Indónesíu í október í fyrra, en þá fórust 189 manns.
Icelandair á þrjár svona vélar, og sex til viðbótar verða teknar í notkun á næstu misserum.
„Fyrstu viðbrögð okkar eru að reyna að komast að einhverjum staðreyndum í málinu og reyna að skilja hvað gerðist við þessar aðstæður. Við förum inn í okkar hópa fagmanna, flugmanna og annarra, og reynum að átta okkur á stöðunni,“ segir Jens Þórðarson, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs Icelandair.
Eðlileg tenging
Þar sem enn sé mjög lítið vitað um orsakir slyssins um helgina segir Jens að engin ákvörðun hafi verið tekin um að kyrrsetja þær þrjár Max 8 vélar sem félagið er með í notkun.
„Það er auðvitað eðlilegt að tengja saman þessi tvö slys, og velta því upp hvort þau hljóti ekki að vera tengd. Það er margt sem þau eiga sameiginlegt; sama flugvél og sami staður í flugi. En það er líka ýmislegt sem bendir til þess að þau sé ekkert endilega nátengd. Og það má bæta því við að samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum um fyrra slysið, þá er ýmislegt sem bendir til þess að viðhald samkvæmt okkar stöðlum og evrópskum stöðlum, hefði líklegast getað komið í veg fyrir það slys,“ segir Jens. Þá miði þjálfun flugmanna Icelandair einnig að því að bregðast rétt við undir þeim aðstæðum sem þar sköpuðust.
Jens segir að starfsfólk Icelandair hafi verið í stöðugum samskiptum við fulltrúa Boeing verksmiðjanna í dag.
„Við erum í daglegum samskiptum við þau út af öllum rekstri flugvélanna okkar en í svona málum höldum við samskiptunum mjög nánum og margoft á dag til þess að komast að nýjum staðreyndum og öðru.“
Þetta eru tvö hryllileg slys á stuttum tíma - hafið þið áhyggjur af þessari stöðu?
„Við skiljum það mjög vel að fólk hafi áhyggjur og auðvitað getum ekki annað en haft samúð með því. Þetta lítur ekki vel út, sama vélartegund.“
Ef forsvarsmenn Icelandair hefðu teljandi áhyggjur af rekstri vélanna yrði hins vegar gripið til róttækra aðgerða.
Hafið þið orðið vör við að farþegar hafi áhyggjur? Hafa þeir haft samband við ykkur vegna þessa?
„Já farþegar hafa töluvert haft samband við okkur og við skiljum það mjög vel og reynum að útskýra eins og hægt er fyrir viðskiptavinum okkar hvernig ástatt er.“
Langflestir taki þær skýringar góðar og gildar og Jens segist ekki vita til þess að neinn hafi afbókað flug vegna málsins.