Fara í nám til útlanda vegna húsnæðisskorts

26.10.2016 - 15:09
„Í haust urðum við vör við meiri örvæntingu en áður hjá námsmönnum,“ segir Rebekka Sigurðardóttir upplýsingafulltrúi Félagsstofnunnar stúdenta. Um 1100 manns eru á biðlistum eftir húsnæði á stúdentagörðum og dæmi eru um að námsmenn hafi búið í tjaldi um tíma.

Elín María Böðvarsdóttir ritstjóri Stúdentablaðsins segir allt of algengt að fólk hætti í námi eða sæki það til útlanda því það hafi ekki efni á húsnæði á Íslandi. Rebekka og Elín ræddu um húsnæðisvanda ungs fólks í Samfélaginu.

Félagsstofnun stúdenta er einn stærsti leigusali landsins og hefur yfir að ráða 1100 leigueiningum, sem eru allt frá herbergjum og upp í 3-4 herbergja íbúðir. Húsnæðið er eingöngu ætlað stúdentum við Háskóla Íslands og fjölskyldum þeirra, en nemendur HÍ eru um 13 þúsund talsins.

Biðlistar hafa verið að lengjast ár frá ári og voru þeir í sögulegu hámarki eftir úthlutun nú í haust en 1160 biðu þá eftir húsnæði, sem eru fleiri en þær leigueiningar sem stofnunin hefur í boði. „Þar að auki vorum við með mjög fáar einingar til útleigu fyrir nýja nemendur. Þegar búið var að endurnýja samninga við þá íbúa sem áttu kost á því að halda áfram, voru þetta um 200 nýjir stúdentar sem komust að,“ segir Rebekka. Litlar íbúðir í miðborginni, sem áður voru í boði fyrir ungt fólk með lítið af peningum á milli handanna, séu þar að auki í auknum mæli leigðar út til ferðamanna. „Þannig að ástandið er bara afar slæmt.“

Leiguverð á almennum markaði hefur hækkað mjög undanfarin ár og eiga stúdentar sem lifa á námslánum erfitt með að greiða háar upphæðir í leigu. Dæmi eru um að erlendir nemendur hafi hafst við á tjaldsvæðinu í Laugardal og sumir þurfi að hætta við nám hér á landi vegna húsnæðisskorts. „Það er grafalvarlegt ef við erum að fæla frá okkur allt þetta unga fólk, bæði erlenda nema og svo auðvitað íslensku krakkana sem vilja vera hér og læra og búa í borginni,“ segir Rebekka.

Elín María segist sjálf þekkja mýmörg dæmi um það að íslenskir nemendur við HÍ hafi flutt út í nám eftir að hafa lent í húsnæðisvanda hér heima, ekki komist að á stúdentagörðum og ekki haft efni á að leigja á almennum markaði.

Mynd með færslu
Þórhildur Guðrún Ólafsdóttir
dagskrárgerðarmaður
Mynd með færslu
Atli Þór Ægisson
vefritstjórn
Samfélagið
Þessi þáttur er í hlaðvarpi