Farþegum um borð í rútunum sem fóru út af veginum á Kjalarnesi var að vonum nokkuð brugðið. Þau Kevin Pool og Jocelyn voru farþegar í rútunni sem valt. Þau töluðu bæði um hversu gott starf viðbragðsaðilar unnu á vettvangi, og fagmennska þeirra hafi átt þátt í að róa þau niður.

„Við vorum bara að keyra þegar allt í einu kom vindhviða, og vindurinn ýtti rútunni til hliðar. Bílstjórinn reyndi hvað hann gat að rétta rútuna við en það var þá þegar orðið of seint því rútan rann út í kant þar sem var snjór og klaki, og rútan valt. Einhverjir féllu úr sætunum sínum við veltuna. Sjálfur sat ég við glugga. Rúðan brotnaði við veltuna og ég lenti á hliðinni og ofan í snjó,“ sagði Pool við fréttastofu í fjöldahjálparstöð Rauða krossins í Varmárskóla í Mosfellsbæ.

Pool sagðist enn vera í hálfgerðu losti en hann hafi þó sloppið við meiðsli. „Nokkrir meiddust eitthvað og urðu að fara á sjúkrahús, en ég er góður.“ Hann var ánægður með það hversu skjótt brugðist var við. „Allir sem mættu á vettvang voru mjög fagmannlegir. Þeir komu fljótt og allir vissu sitt hlutverk. Það var mjög róandi að finna fyrir því hvað allir voru fagmannlegir, og sinntu sínum störfum vel,“ sagði Kevin Pool.

Jocelyn frá San Francisco sagði bílstjórann hafa gert sitt besta í bylnum. Rútan hafi síðan byrjað að sveigja til hægri áður en hún lenti útaf. „Fararstjórinn gerði svo sitt besta til að aðstoða með því að hringja eftir aðstoð,“ segir Jocelyn. Henni fannst mikið til fagmennsku viðbragðsaðila koma. „Ég vinn sjálf hjá borgaryfirvöldum í San Francisco, og fannst gott að sjá hversu fljótt var brugðist við og allir voru fagmannlegir. Samstarfið var greinilega mjög gott.“