Guðrún Ebba Ólafsdóttir, dóttir Ólafs Skúlasonar biskups, segir að faðir hennar hafi brotið síðast á henni fyrir tólf árum. Það hafi hann gert á hótelherbergi í Kanada. Í viðtali við Þórhall Gunnarsson sem sýnt var í sjónvarpinu í kvöld lýsir Guðrún Ebba því ægivaldi sem faðir hennar hafði yfir henni allt frá því hún var lítið barn. Hann hafi beitt hana kynferðisofbeldi árum saman en hún hafi lengi vel lokað á þær minningar.
Það hafi svo verið þegar hún fór í áfengismeðferð fyrir nokkrum árum sem hún horfðist í augu við ofbeldið. Smám saman hafi rifjast upp hræðilegar minningar tengdar föður hennar.
Guðrún Ebba lýsti því hvernig pabbi hennar níddist á henni inni á klósettinu heima hjá þeim. Hann hafi verið með einkaklósett og þar hafi hann komið fram vilja sínum. Þegar hann hafi verið búinn að ljúka sér af hafi hann látið hana bíða inni á klósetti þangað til hann gaf henni leyfi til að fara inni herbergi. Hún sagði að pabbi hennar hafi haft ógurlegt vald yfir sér. Hann hafi ekki þurft annað en að nikka til hennar þá hafi hún vitað að þegar hann væri farinn inn á klósett þá ætti hún að fara til hans. Þannig hafi henni fundist hún vera samsek, sem hún sjái nú að sé galið enda hafi hún bara verið lítil stúlka.
Jólin hafi ekki verið nein undantekning. Tilfinningin hafi verið ömurleg þegar hún uppgötvaði að hún slapp ekki einu sinni þá. Eitt skiptið hafi pabbi hennar sagt henni að bíða á klósettinu eftir að hann var búinn að brjóta á henni. Hún hafi ekki getað hreyft sig fyrr en hann væri búinn að gefa henni leyfi. Þegar hann svo kom til baka gaf hann henni appelsín. Guðrún Ebba sagðist síðan þá helst ekki drekka appelsín enda tengi hún drykkinn við ofbeldið.
Þá lýsti Guðrún Ebba því að Ólafur hafi farið með hana í bíltúra þar sem hann kom fram vilja sínum við hana. Hún rifjaði upp að þegar hún var í kringum tólf ára hafi hann komið heim um sex leytið og sagst ætla með Guðrúnu Ebbu í bíltúr. Mamma hennar hafi verið að elda en ekkert sagt. Guðrún Ebba sagðist oft hafa vonað að mamma hennar myndi spyrja hvers vegna hann væri að fara með hana í bíltúra en það gerðist aldrei.
Aðspurð hvort mömmu hennar hafi aldrei grunað neitt sagði Guðrún Ebba að það væri ekki sitt að svara því. Ólafur hafi beitt miklu andlegu ofbeldi á heimilinu og konur sem búi við ofbeldi séu ekki í stakk búnar til að vernda börnin sín.
Guðrún Ebba sagði að Ólafur hafi hótað því að ef hún segði frá myndi hún standa ein, fjölskyldan myndi yfirgefa hana og hún myndi aldrei eignast peninga eða fá vinnu. Henni hafi fundist hún vera samsek og því hafi hún ekki geta greint frá ofbeldinu fyrr.
Guðrún Ebba segir að Ólafur hafi síðast beitt hana ofbeldi fyrir 12 árum. Þá hafi hún verið á ferðalagi með mömmu sinni og pabba í Kanada. Hún vildi ekki greina nákvæmlega frá því en það hafi verið einstaklega erfitt að horfast í augu við ofbeldið. Hún hafi hugsað hvort ekki væri betra að segja ekki frá því broti en svo hafi hún ákveðið að gera það því hún óttist að hún sé ekki sú eina. Þetta brot hafi verið erfiðast. Hún hafi verið fullorðin og hægt sé að segja að hún hefði átt að fara úr aðstæðunum. Hún hafi hins vegar frosið og breyst í barnið aftur. Hún sagði það merkilegt og óhugnalegt að hún hafi verið varnarlaus, fullorðin kona, hún hafi ekki getað komist undan honum. Guðrún Ebba sagði að þótt fólk segði að Ólafur hefði ekki nauðgað henni þarna þar sem hún hafi farið inn til hans og ekki sagt nógu skýrt nei eða brotist um þá hafi það samt verið nauðgun. Hún hafi hreinlega ekki getað varið sig.
Sagði hana ruglaða
Hún segist hafa óttast að einhver kæmist að leyndarmálinu og því hafi hún til að mynda ekki þorað að banna dætrum sínum að gista hjá afa og ömmu. Hefði hún gert það hefði hún þurft að útskýra hvers vegna og þá hefði allt komist upp. Aðspurð hvort hún hafi aldrei óttast að Ólafur hafi beitt dætur hennar kynferðisofbeldi segist hún gera það í dag. Hún segist hafa verið í afneitun. Hún segir að auðvelt sé að segja núna að hún hefði átt að passa og vernda þær betur og það hefði hún vissulega átt að gera. Hún hafi hins vegar ekki getað það og með það sitji hún uppi.
Guðrún Ebba hafði samband við pabba sinn árið 2006 í gegnum síma. Hún sagði honum frá ofbeldinu og hann brást reiður við. Hann hafi öskrað og æpt á hana í símann. Þá hafi hann haft samband við ráðgjafa Guðrúnar Ebbu og fleira fólk í þeim tilgangi að segja hana ruglaða og ljúga. Það hafi stundum borið árangur því einhverjir hafi trúað honum frekar en henni.
Ólafur Skúlason lést árið 2008. Guðrún Ebba ákvað að heimsækja ekki föður sinn þegar hann lá banaleguna. Hún sagðist ekki hafa getað hugsað sér að fara. Hún var heldur ekki viðstödd jarðarförina hans. Það hafi ekki bara verið fyrir sig heldur líka hafi falist í því ákveðin yfirlýsing því erfitt sé að útskýra hvers vegna dóttir Ólafs og dætrabörn voru ekki þar.
Guðrún Ebba sagði að fyrst þegar ásakanir á hendur Ólafi komu fram árið 1996 hafi hún staðið með pabba sínum. Það hafi hún gert af ótta við að hennar eigin leyndarmál kæmist upp. Seinna hafði hún samband við eina konuna og baðst afsökunar. Hún segist hafa farið á fund með Karli Sigurbjörnssyni, biskupi Íslands til að segja sína sögu og óska eftir því að konurnar fengju uppreisn æru. Hún hafi viljað að kirkjan vissi hvern mann faðir hennar hafði að geyma.
Á fundi með Karli hafi hann ráðlagt henni að senda formlegt bréf, stílað á biskup. Hún hafi sent ítarlega lýsingu á ofbeldinu en seinna fengið að heyra að á skrifstofu biskups þætti bréfið viðbjóðslegt og því hafi það verið sett ofan í skúffu.
Einu og hálfu ári seinna hafi verið greint frá bréfinu í DV og hún í kjölfarið boðuð á fund með kirkjuráði. Þar hafi hún fengið á tilfinninguna að enn ætti að þagga málið niður.
Hún sagðist ekki vilja svara því hvort hún treysti Karli til að gegna stöðu biskups. Hann hefði brugðist sér en það væri annarra að kjósa biskup. Guðrún Ebba sagðist vonast til að kirkjan myndi læra af mistökunum og þar með koma í veg fyrir að önnur eins í framtíðinni.