Fangelsið Litla Hrauni er stærsti vinnustaðurinn á Eyrarbakka og því samofið samfélaginu í þorpinu, segir Lýður Pálsson safnstjóri Byggasafns Árnesinga. Safnið hefur sett upp sýningu, í Húsinu á Eyrarbakka, á starfsemi Litla-Hrauns, sem upphaflega var byggt sem sjúkrahús, en aldrei starfrækt sem slíkt.
Um 1920 var Eyrarbakki stærsti þéttbýlisstaður á Suðurlandi, bendir Lýður á. Þá bjuggu um 950 manns í þorpinu, en sjúkrahúsið átti líka að þjóna byggðunum í kring. Guðjón Samúelsson teiknaði húsið sem var risið árið 1922, en þá hafði orðið bakslag á Eyrarbakka og ekkert varð af spítalarekstrinum. Fór því svo, árið 1928, að Jónas frá Hriflu, sem þá var dómsmálaráðherra beitti sér fyrir því að fangelsi yrði rekið að Litla Hrauni, enda allt orðið fullt í Hegningarhúsinu við Skólavörðustíg. Fangelsið tók til starfa 8. mars 1929, fyrir 90 árum.
Hlýða má á Lýð Pálsson, segja sögu Litla_Hrauns og frá sýningunni í spilaranum hér að ofan. Þeir sem vilja kynna sér daglegt líf á Hrauninu nú á dögum geta hlýtt á þættina Letigarðurinn, sem Helgi Seljan og Hrafnkell Sigurðsson gerðu árið 2016.