Er hringvegurinn sprunginn eða annar hann eftirspurn og fjölmörgum túristum frá öllum heimshornum? Þetta eru spurningar sem brenna á landsmönnum, sem hafa farið vítt og breitt síðustu daga og vikur. Við ræddum þetta við Hrein Haraldsson vegamálastjóra.

Guðni Th. Jóhannesson er sjötti forseti Íslands, hann var vígður í embætti í gær við hátíðlega athöfn og hélt þar ræðu sem vakti mikla lukku. Við veltum fyrir okkur ræðumennsku og mælskulistinni. Hvað gerir góða ræðu góða? Arna Björk Gunnarsdóttir senator hjá JCI sagði okkur það.

Við töluðum líka við unga konu sem undirbýa nú stofnun bókasafns í flóttamannabúðunum í Thessoloniki í Grikklandi. Kristín Rós Kristjánsdóttir heitir hún og starfaði upphaflega í búðunum sem sjálfboðaliði og kynntist þeim þannig.

Síðan hófust hinir árlegu Hinsegin dagar í dag. Við ræddum við Baldur Þórhallsson sem leiðir sögugöngu samkynhneigðra ásamt Þorvaldi Kristinssyni í kvöld - og heyrðum þar á meðal annars ástarjátningar pilta úr Lærða skólanum í Reykjavík til skólabræðra sinna. 

Og svo var það smá Harry Potter. Um helgina kom út ný Harry Potter bók ... samt ekki alveg, því höfundurinn er ekki J.K. Rowling. Um er að ræða leikrit byggt á ævi Harrys; þegar hér kemur við sögu er hann orðinn starfsmaður í ráðuneyti galdra og sagan hverfist að mestu leyti um yngsta son hans, Albus. Við ætlum að velta fyrir okkur þessu bókmenntaformi, þegar eldheitir aðdáendur eða áhugamenn grípa í pennan og skrifa sitt eigið framhald. Þau Jón Geir Jóhannsson og Margrét Dorothea Jónsdóttir ræddu við okkur.

En við byrjuðum í Ríó, þar sem Ólympíuleikarnir verða settir eftir þrjá daga. Einhverjir íslensku keppendanna eru mættir á staðinn, aðrir á leiðinni. Andri Stefánsson sviðsstjóri Afreks- og Ólympíusviðs ÍSÍ og aðalfararstjóri íslenska hópsins er mættur þangað og talaði við okkur