„Þetta er fallegasta hús á Íslandi,“ á hinn heimsfrægi finnski arkitekt Alvar Alto að hafa sagt þegar hann sá Laxabakka við Sogið, skammt frá Þrastarlundi. Unnið er að því að byggja húsið upp en það hefur legið undir skemmdum.

Alto var staddur hér á Íslandi vegna vígslu Norræna hússins þegar hann lét orðin falla um Laxabakka við Sogið, en það var sumardvalarstaður kvikmyndagerðarmannsins Ósvalds Knudsen sem hann hreifst svo að. Nú keppir myndlistarmaðurinn Hannes Lárusson að því að bjarga húsinu frá algjörri glötun og hefur safnað um sig góðum hópi fólks til að vinna að málinu. 

„Þetta er eiginlega módernismi og torfhús saman í einu húsi,“ segir Hannes Lárussson um Laxabakka, en húsið var hannað og byggt af Ósvaldi Knudsen, kvikmyndagerðarmanni og málarameistara, af miklu listfengi og alúð árið 1942. „Þarna eru allir innanstokksmunir hannaðir og einstakir, þannig að ég lít á húsið sem hreint listaverk.“

Níunda mars síðstliðinn var haldið málþing að Austur-Meðalholtum í Flóahreppi um framtíð Laxabakka, hugmyndir um uppbyggingu hússins og mögulega notkunarmöguleika. „Við kölluðum saman hóp vegna þess að húsið er í mjög slæmu ástandi, nánast að falli komið, en enn er möguleiki á að bjarga því og byggja það upp.“

Hannes segir að húsið eigi sterkan sess í hugum margra Íslendinga, þar sem það blasir við frá veginum undir Ingólfsfjalli. „Þetta er hús er eiginlega milli gamla tímans og nýja tímans, síðasti hlekkurinn þar á milli.“

Hannes Lárusson fer fyrir Íslenska bænum sem snýst um þennan gamla byggingararf, en félagið á nú Laxabakka og stefnir að því að byggja húsið upp, þegar framkvæmdaleyfi til þess liggur fyrir. „Við viljum endurreisa húsið og byggja þarna starfsemi í kringum það í vistvænum þjónustuskála sem við viljum byggja þarna við líka. Ætlunin er að þar geti verið fræðslusetur um náttúru og menningu og mögulega dvalarstaður fyrir lista- og vísindamenn.“

Hannes Lárusson sagði frá Laxabakka í Víðsjá á Rás 1. Viðtalið er allt hér í spilaranum að ofan.