„Fall er fararheill“, sagði forstjóri Landspítalans þegar hann reyndi að taka við lyklum að nýju sjúkrahóteli í dag úr höndum heilbrigðisráðherra en lyklarnir duttu í gólfið. „Þetta er happa,“ svaraði ráðherra að bragði. Stefnt er að því að fyrstu sjúklingarnir komi á hótelið fyrsta apríl.

Upphaflega stóð til að sjúkrahótelið yrði fullbyggt vorið 2017 en það var svo loksins í dag, fjórum árum eftir að bygging hótelsins hófst, sem félagið, Nýr Landspítali ohf. afhenti heilbrigðisráðherra lyklana. Það kemur svo í hlut Landspítalans að reka hótelið fyrstu tvö árin.

„Þetta er auðvitað stór dagur auðvitað fyrst og fremst fyrir sjúklinga og fyrir það markmið að við ætlum að jafna aðgengi að heilbrigðisþjónustu. Þannig að íbúar úti um land geta vænst þess að vera hér þegar þeir eru að sækja þjónustu,“ segir Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra. 

„Í öðru lagi eru það verðandi mæður í áhættumeðgöngum, þær og fjölskyldur þeirra eiga þá miklu auðveldara en áður að vera nærri öruggustu fæðingarstofum landsins,“ segir Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans.

Þá tekur hótelið við einhverjum þeirra sem núna eru inni á þéttsetnum sjúkrastofum. 

„Vegna þess að þarna höfum við tækifæri til að útskrifa fólk fyrr af sérhæfðum legudeildum,“ segir Páll.

Á sjúkrahótelinu eru sjötíu og fimm herbergi. 

Hvenær sérðu fyrir þér að fyrstu sjúklingarnir komi hérna inn?

„Við stefnum að því að það verði 1. apríl. Svo sjáum við hvernig það gengur. Við erum á fullu í því að leita að starfsfólki,“ segir Páll.

Tæplega tuttugu munu starfa á hótelinu.

Kostnaðurinn við bygginguna nemur rúmum tveimur miljörðum króna en svo bætist meiri kostnaður við. 

„Það eru tölur sem er verið að takast á um í gerðardómum og verktaki og verkkaupi hafa sammælst um það að birta þær ekki opinberlega fyrr en að lokinni niðurstöðu gerðardóms,“ segir Gunnar Svavarsson, framkvæmdastjóri Nýs Landspítala ohf.