Sex smiðir vinna nú hörðum höndum að því að smíða stafkirkju í Bolungarvík. Þeir byrjuðu á kirkjunni seinnipartinn í nóvember og áætla að verða langt komnir í apríl. En þá er ekki öll sagan sögð því kirkjan á þá eftir ferðalag til Færeyja þar sem hún verður reist. Áður en til þess kemur verður hún tekin niður staf fyrir staf.
Hugmyndina á færeyskur ferðamálafrömuður sem er að byggja upp gamaldags þorp í Kvívík þar sem fundust gamlar víkingatóftir. Fáir kunna til stafverka í dag og því leitaði hann til Guðmundar Óla Kristinssonar, smiðs í Bolungarvík, sem hefur smíðað bæði skála og kirkjur í þessum stíl sem náði hátindi á miðöldum. Guðmundur segir mestu kúnstina vera að handleika verkfæri sem menn eru almennt hættir að vinna með. „Þetta er alveg gríðarleg þolinmæðisvinna enda held ég að það þurfi mikla sérvitringa í svona verkefni.“
Og pressan er töluverð því ungt par bíður eftir að giftast í kirkjunni. „Og það er eins gott að það hangi þangað til og ég klúðri ekki kirkjunni. Þannig það er mikið sem hvílir á herðum okkar,“ segir Guðmundur.
Landinn lærði stafverk í Bolungarvík. Þáttinn í heild er hægt að sjá hér. Landinn er einnig á Facebook sem og á YouTube og Instagram: #ruvlandinn.