Auka þarf sjálfvirkni og fækka störfum til að bregðast við tapi á rekstri ferðaþjónustunnar á landsbyggðinni, segir ferðamálastjóri. Launakostnaður sé orðinn mjög stór hluti af kostnaði ferðaþjónustufyrirtækja.
Fossar, hverir, fjöll og fimbulkuldi. Allt dregur þetta ferðamenn hingað til lands en þó ekki jafnt til allra landshluta. Ferðamálastofa fékk KPMG til að vinna úttekt sem kynnt var í dag.
„Afkoma hótelfyrirtækja á höfuðborgarsvæðinu batnar milli áranna 2015 og 2017 en hún versnar mjög mikið úti á landsbyggðinni og er áberandi verst á Norðurlandi,“ segir Alexander Eðvarðsson, meðeigandi hjá KPMG.
Þannig var hagnaður fyrir skatta, afskriftir og fjármagnskostnað sextán komma níu prósent af tekjum á höfuðborgarsvæðinu í fyrra og tíu komma níu prósent á Suðurlandi. Á Vesturlandi var hins vegar tap upp á fjögur komma eitt prósent af tekjum og á Norðurlandi sjö komma fjögur prósent af tekjum. Ekki fengust nægar upplýsingar um Austurland.
Staðan er heldur betri þegar kemur að bílaleigum. Þó dró úr hagnaði í fyrra miðað við árið áður og fór hann úr sex komma þremur prósentum af tekjum í aðeins hálft prósent af tekjum. Sambærilegar tölur fyrir rútufyrirtæki eru talsvert lægri. Árið 2015 nam hagnaður þeirra sjö komma fjórum prósentum af tekjum að meðaltali en á árunum 2016 og 2017 varð tap á rekstrinum. Afþreyingafyrirtæki í ferðaþjónustu voru ekki með í úttektinni.
„Mikið af þessum fyrirtækjum eru að selja í erlendum gjaldmiðlum, kostnaðurinn er í krónum,“ segir Alexander. Kostnaður hefur aukist og tekjurnar minnkað.
„Afkoma úti á landi er mjög slök og ef hún heldur áfram svona þá verður ekki mikil ferðaþjónusta úti á landi. Launakostnaður er orðinn mjög stór hluti af kostnaði hjá fyrirtækjum og víða úti á landi er hann kominn um og yfir 50% sem er ekki sjálfbært. Það tækifæri sem ég held að sé áhugaverðast, það er að auka sjálfvirkni, notkun á tækni, hugbúnaði,“ segir Skarphéðinn Berg Steinarsson ferðamálastjóri.
Þannig í raun að fækka störfum í ferðaþjónustu?
„Já, að einhverju leyti mun það verða svipuð þróun og varð í sjávarútvegi,“ segir Skarphéðinn.