Það ætti að stefna frekar að því að gera foreldrum kleift að vera heima með börnum sínum tvö fyrstu ár ævi þeirra í stað þess að vinna að opnun ungbarnaleikskóla. Þetta segir Sæunn Kjartansdóttir hjúkrunarfræðingur hjá Miðstöð foreldra og barna. Rætt var við hana í Samfélaginu.

Sæunn segir að fæðingarorlofið eigi lítið skylt við orlof. Þetta sé almesta þjónustuhlutverk sem fólk taki að sér á ævinni. Fyrstu tvö árin sé lagður grunnur að heilaþroska barnsins, hugmyndum þess um það sjálft og um heiminn. Miklu skiptir að skapa sem mest öryggi og draga úr streitu hjá barninu því streita hafi áhrif á heilaþroska barna.  Þá þurfi fleiri en einn til að sinna barninu fyrstu árin þótt móðir þess hafi stærra hlutverk fyrstu vikurnar og mánuðina. 

Röng stefna að fjölga ungbarnaleikskólum 

Sæunn telur það vera ranga stefnu að fjölga ungbarnaleikskólum. Heldur eigi að lengja orlofið og styrkja foreldra til að sinna barni sínu. Starfsfólk á leikskólum sé of fátt. Börn þurfi fleiri fullorðna í kringum sig fyrstu árin og færri börn, en því er öfugt farið á leikskólum. Hún tekur ekki undir að leikskólar bjóði upp á mikilvægt nám. Fyrstu tvö árin séu börnin aðallega að læra á sig sjálf, samskipti og fólkið í kringum sig. „Það  er rosalega streituvaldandi fyrir lítið barn að vera marga klukkutíma á dag frá foreldrum sínum innan um mörg önnur þurfandi lítil börn. Það er auðvitað hávaðinn og áreitið sem fylgir því. Ég veit að það finnst mörgum foreldrum erfitt að heyra þetta því þetta eru einu valkostirnir sem þeir hafa og þeir hafa þá ekki einu sinni. Eins og þetta er í dag er dálítið mikið galið.“

Sæunn segir að hún heyri það hjá mörgum foreldrum að þeir fari að kvíða því undir lok sex mánaða fæðingarorlofs hvað verði nú um barnið á meðan þeir eru í vinnu. Þá þurfi þeir að treysta ókunnugu fólki fyrir barninu sínu. Flestir vildu vera lengur heima með barni sínu og jafnvel vinna hlutastarf. 

Sæunn segir að ungir feður í dag vilji vera með börnum sínum. „Ég talaði til dæmis við eina foreldra og þau áttu tvö börn með frekar stuttu millibili og  voru heima, skiptust á. Og þau sögðu við erum bara búin að reikna það út að þetta kostar tvær, þrjár milljónir,  sem við erum að tapa í tekjum. En þau voru þannig stödd að þau gátu það. Þau sögðu: Við bara förum seinna í stærra húsnæði, við eigum bara einn bíl, förum ekki til útlanda. Það var allt mögulegt sem þau neituðu sér um. En þetta var val.“
Sæunn segir að það virðist vera leyfilegra að velja að vera heima í dag. Ef móðir vildi vera heima með barni sínu fyrir áratug hafi það þótt athugavert. Hún hefði ekki metnað, var ekki í góðri vinnu, eða einfaldlega löt.  Þetta hafi breyst. 

„Ég horfi til Norðurlandanna og þar er [fæðingarorlofið] lengra. Það er búið að rannsaka þetta og pæla mikið í þessu. Hvað kemur sér best fyrir börnin og það sem kemur sé betur fyrir börnin kemur sér yfirleitt betur fyrir samfélagið til lengri tíma litið. Það að spara á þessum fyrstu mánuðum, það er mesta vitleysa sem við getum gert. Það er búið að rannsaka það líka. Hver króna sem er spöruð fyrstu tvö ár barns kostar 30 seinna meir. Þá er það bæði kostnaður vegna foreldranna en mest vegna barnanna og þá er það kostnaður sem fellur til í heilbrigðiskerfinu, menntakerfinu og félagslega kerfinu. Af því að ef börn fá ekki þennan grunn, þetta öryggi með sjálf sig og með tengsl, ef það er ekki alveg innbyggt í þau, bara þetta eina: Ef mér líður illa, þá veit ég að það er einhver manneskja þarna, oftast mamma eða pabbi, eða einhver annar sem kemur í þeirra stað, sem ég veit að ég get leitað til og ég veit að munu hlusta á mig, taka mig alvarlega og reyna að hjálpa mér. Bara svona grundvallaratriði, þetta er ótrúlega mikilvægt veganesti upp á alla heilsu seinna meir.“

Hægt er að hlusta á allt viðtalið í spilaranum hér fyrir ofan.