Þór Matthíasson, þróunarstjóri hjá markaðs- og tæknifyrirtækinu Svartagaldri notar sjálfur ekki Facebook. Hann segir að því meira sem fólk birti á Facebook því meira viti fyrirtækið um það. Hann telur að persónuupplýsingar af samfélagsmiðlum verði líklega notaðar í kosningum framvegis.
Vaxandi áhyggjur af áhrifum samfélagsmiðla
Helga Þórisdóttir, forstjóri Persónuverndar, sagði í Speglinum í gær að sterkar vísbendingar væru um að skoða þurfi framkvæmd kosninga hér á landi. Persónuvernd hóf því fyrir nokkru frumkvæðisathugun á því hvort kosningarnar 2016 og 2017 hafi farið rétt fram. Ekki er vitað hvenær þeirri rannsókn lýkur.
Persónuverndarstofnanir í Evrópu hafa vaxandi áhyggjur af áhrifum samfélagsmiðla á lýðræðið og telja að framvegis eigi þeir eftir að hafa áhrif á niðurstöður kosninga.
Eitt fyrirtæki með gífurlega mikið af persónuupplýsingum
Þór segir að með réttum tækjum sé hægt að fylgjast með því sem fólk geri á samfélagsmiðlum, sjá hvað því líkar við, hvaða síðum það deili og greina út frá því hvort viðkomandi sé t.d. hægri- eða vinstrisinnaður. „Þetta er alltaf að þróast og alltaf að verða betra en ég held að það sé bara mjög gott að fólk sé aðeins að gera sér grein fyrir því hvað mikið er af upplýsingum á netinu og ekki vera alltaf að deila öllu.“
Facebook, þetta eina fyrirtæki eigi gífurlega mikið af persónuupplýsingum um okkur sem notendur. „Og því meira sem við deilum, því meira vita þeir hvernig við fúnkerum. Og vita bara jafnvel meira um okkur en við vitum um okkur sjálf. Og ég tala nú ekki um eftir að þeir breyttu like-hnappinum í að þú getur lækað og brosað og verið með fýlukalla eða hvað og hvað. Þá opnuðust bara enn þá fleiri víddir.“
Hættuleg völd
Hver og einn getur ekki nýtt þessar upplýsingar heldur er hægt að greina þær með tauganeti. Láta vélina finna út ýmsa hluti um fólk. „Og með því eru náttúrulega komin gífurlega hættuleg völd. Facebook vill meina að þeir deili ekki þessum upplýsingum en það geta komið upp gagnalekar.“
Heldur þú að framvegis verði þessar aðferðir notaðar til að hafa áhrif á niðurstöður kosninga? „Ef þetta er til staðar þá mun alltaf vera einhver sem mun reyna að nýta sér svona hluti fyrir sig og sína. Og þá er bara spurning um hvort einhver verður til að koma í veg fyrir það. En ég myndi segja, við notendur, við sjálf þurfum bara að hafa svona hluti í huga. Ekki hleypa öllum að inni á Facebook og ekki hafa allt sýnilegt. Og bara hugsa aðeins áður en við deilum. Hvað gerir þú? Ég bara nota ekkert Facebook, það er ekki flóknara en það.“