Facebook spornar gegn falsfréttum

04.08.2017 - 05:13
Mynd með færslu
 Mynd: EPA
Samfélagsmiðillinn Facebook hyggst herða tökin á falsfréttum sem dreift er á miðlinum. Greinar, sem grunað er að séu ekkert annað en falsfréttir, verða sendar til yfirlesturs hjá utanaðkomandi aðila og niðurstöður þeirra birtar. Facebook hefur sætt talsverðri gagnrýni undanfarin misseri fyrir að gera ekki nógu mikið til að sporna gegn falsfréttum. Fréttastofa BBC segir frá þessu.

Fleiri brögðum verður teflt fram gegn falsfréttum í Bandaríkjunum, Frakklandi, Þýskalandi og Hollandu. Þar verður hlekkjum sem vísa á fleiri fréttir um sama mál bætt við fyrir neðan fréttagreinar. Þannig geti notendur séð sama mál frá fleiri sjónarhólum, segja talsmenn Facebook.

Gagnrýnendur samfélagsmiðilsins segja að þótt skref sé tekið í rétta átt sé ekki nóg að gert. Ekki sé komið í veg fyrir að falsfréttir fari í umferð. Gagnrýnisraddir um Facebook voru ef til vill hvað háværastar í kringum bandarísku forsetakosningarnar í fyrra. Margir telja að falsfréttir hafi þar skipt sköpum, segir í frétt BBC.

 

 

Matthías Tryggvi Haraldsson
Fréttastofa RÚV