Facebook hefur heimild til að safna upplýsingum um staðsetningu fólks, um tengiliði í persónulegri símaskrá og við hverja fólk talar, og nota myndir frá fólki. Eina leiðin til að tryggja sig gegn þessu er að hætta að nota samfélagsmiðilinn.

Þessar auknu heimildir tók Facebook sér um áramótin. Annars vegar breyttust skilmálar varðandi það sem fólk setur á Facebook; myndir, innlegg og komment, þær upplýsingar fær notandinn meiri stjórn yfir, og getur stjórnað því hverjir sjá það.

En það breyttust líka þeir skilmálar Facebook um upplýsingarnar sem verða til við notkunina. Facebook safnar upplýsingum um staðsetningu notenda, hvað hann skoðar á netinu, hverju hann leitar að á Google, og geta líka séð hverja hann hefur samband við eða hringir í.

Forráðamenn Facebook líta svo á að allir sem hafa notað síðuna á þessu ári séu þar með búnir að samþykkja þessar auknu heimildir Facebook.

Mega nota myndir að vild

Tilgangurinn með þessari upplýsingaöflun segir Facebook vera að þann að geta miðað auglýsingar betur að notandanum. „En við vitum öll að það hafa verið afhent gögn til þriðja aðila frá svona fyrirtækjum, og það er fleira, myndir sem þú leggur út að Facebook mega þeir nota, royalty free án þess að greiða fyrir það, og world wide, um allan heim, segir Ævar Einarsson, ráðgjafi hjá Deloitte. Engu máli skipti þótt notendur skrifi á Facebook síðu sína yfirlýsingu um að þeir viljir ekki að Facebook noti þetta. „Nei, það skiptir engu máli. Ef þú vilt vera alveg viss að þessar upplýsingar leki ekki til þriðja aðila og að myndirnar þínar séu ekki notaðar, þá verðurðu náttúrulega bara að hætta að nota Facebook, það er það eina sem þeir bjóða upp á.“