VÍS hefur samþykkt að greiða bændum í Álftaveri bætur vegna tjóns sem þeir urðu fyrir í skýstrókum í sumar, þrátt fyrir að tryggingafélagið hafi hafnað bótaskyldu í upphafi. Samkvæmt bráðabirgðamati nemur tjónið tæpum átta milljónum.
Föstudaginn 24. ágúst gengu skýstrókar yfir bæinn Norðurhjáleigu í Álftaveri í Skaftárhreppi. Strókarnir ollu töluverðu tjóni, hús skemmdust mikið, þök losnuðu af sjö húsum og brakið fauk hundruð metra. Þá lyftist jeppi upp af jörðinni og endaði á hvolfi ofan í skurði. Framkvæmdastjóri Náttúruhamfaratrygginga Íslands lýsti því strax yfir að hún bætti ekki tjón af völdum skýstróka. Þá fengu ábúendur á bænum þær upplýsingar frá VÍS að félagið myndi ekki bæta tjónið því þeir voru ekki með óveðurstryggingu. Gísli Tryggvason, lögmaður ábúendanna, hefur unnið að málinu síðan þá, og nú er komið annað hljóð í strokkinn.
„Allir sem við leituðum til neituðu bótaskyldu en nú hefur VÍS skipt um skoðun og það er bara mjög ánægjulegt,“ segir Gísli.
Hvað varð til þess að VÍS skipti um skoðun?
„Ég og mínir umbjóðendur bentum á ákveðin mistök sem þeir hefðu hugsanlega gert í flutningi trygginga á milli eigenda að búinu. Þeir féllust á það og nú eru þeir að fara að senda matsmann til þess að meta nákvæmt tjón.“
Lagabreyting í farvatninu
Sæunn Káradóttir, bóndi í Norðurhjáleigu, segir að þetta séu mikil gleðitíðindi.
„Það er gott að það sé loksins að koma einhver lausn á þessu máli. Og bara frábærar fréttir.“
Nú fáið þið einhverjar bætur - hvernig getið þið notað þá fjármuni?
„Það verður til þess að lagfæra hús og svo þarf náttúrulega að rífa einhver hús þannig að það sem við fáum fer í þessar lagfæringar.“
Matsmaður hefur þegar lagt bráðabirgðamat á tjónið í Norðurhjáleigu. „Það er á milli sjö og átta milljónir, gróflega metið,“ segir Sæunn.
Í október lögðu þingmenn fimm flokka fram frumvarp á Alþingi, um að Náttúruhamfaratrygging Íslands skuli einnig vátryggja gegn tjóni vegna skýstróka. Mælt var fyrir frumvarpinu í dag.
„Þannig að ég vona nú að fulltrúar ríkisvaldsins taki sig til og breyti lögunum í tæka tíð þannig að það þurfi ekki að breyta þeim afturvirkt eða með bráðabirgðalögum eins og stundum hefur verið gert. Mér finnst að þetta séu ófyrirséðar náttúruhamfarir sem ættu að bætast úr almannasjóði, hvort sem menn eru tryggðir eða ekki,“ segir Gísli.