Fá hollan mat til að fækka endurinnlögnum

16.07.2017 - 14:47
Mynd með færslu
 Mynd: thetimes.co.uk
Líkurnar á því að sjúklingur þurfi aftur að vera lagður inn á spítala eftir að hann er sendur heim eru meiri ef hann temur sér ekki hollt mataræði. Þetta á ekki síst við um eldri borgara, enda er nýju framtaki í Danmörku ætlað að leggja eldri borgurum lið við að njóta holls matar eftir vist á sjúkrahúsi. Þannig verði stuðlað að velferð þeirra heima fyrir og reynt að koma í veg fyrir að þeir þurfi aftur að vera lagðir inn, segir á vef danska ríkisútvarpsins, DR.

Framtakið felst í því að eldri borgarar fái hollan mat sendan mat heim til sín. Steen Christiansen, bæjarstjóri í Albertslund rétt vestan við Kaupmannahöfn, segir að slíkt sé góð fjárfesting. Reynt sé að lækka kostnað á heilbrigðisþjónustu við aldraða með því að gefa þeim réttan mat.

Framtakið er samstarfsverkefni sveitarfélaganna Albertslund og Vallensbæk ásamt Metropol-stofnuninni og fyrirtækinu Det Danske Madhus. Þegar búið er að þróa verkefnið frekar er vilji til að láta það ná yfir allt landið, segir viðmælandi DR hjá Metropol.

Sjá frétt DR hér.

Matthías Tryggvi Haraldsson
Fréttastofa RÚV