Fólk með félagsfælni þénar minna en aðrir, er oft með minni menntun, fær minni framgöngu í starfi og á á hættu að þróa með sér þunglyndi. Sóley Dröfn Davíðsdóttir, sálfræðingur á Kvíðameðferðarstöðinni, segir að góðu fréttirnar séu hins vegar þær að það er til meðferð við félagsfælni sem virkar vel.

Forðast samskipti við aðra

Óttast þú einhverjar félagslegar aðstæður þar sem þér finnst þú þurfa að standa þig? Óttast þú, þegar þú ert í þessum aðstæðum, að þú munir koma illa fyrir eða vekja neikvæð viðbröð hjá öðrum? Þetta eru fyrstu tvær spurningar á prófi sem fólk getur tekið til að kanna hvort það sé haldið félagsfælni. 

Spurningaprófið er á vef Kvíðameðferðarstöðvarinnar. Ekki er víst að fólk sé haldið félagsfælni þó það svari þeim játandi því flestir finna fyrir félagskvíða við ákveðnar aðstæður. Ef fólk hefur grun um að það sé með félagsfælni er æskilegt að ræða við fagfólk. 

Sóley Dröfn segir að þegar fólk þjáist af félagsfælni sé það ofboðslega kvíðið þegar það þarf að eiga samskipti við aðra, gera eitthvað þegar aðrir sjá til, kynnast fólki og svo framvegis. Það óttast að aðrir dæmi það, álíti það vitlaust, asnalegt eða skrítið. Þetta er sem sagt sjúklegur ótti vð það að koma illa fyrir eða verða sér til skammar. Nokkrar kenningar eru til um það hvers vegna fólk verður félagsfælið.  

„Við vitum t.d. að einhvers staðar hefur fólk lært að það sé hætta á að aðrir dæmi mann, til dæmis ef börn hafa reynslu af einelti þá er ekkert óalgengt að þau þrói með sér á unglingsárum félagskvíða eða félagsfælni.“ 

Allt að þrettán prósent fólks þjást af félagskvíða

Allir eru með einhvern félagskvíða og hann er ágætur upp að vissu marki. Fólk vill koma vel fyrir og er ekki alveg sama hvað öðrum finnst. 

„En þegar þettta er orðið félagsfælni þá er þetta verulega farið að hamla fólki í lífinu. Fólk á erfitt með að komast í gengum nám eða þurfa vinna í hóp eða getur alls ekki talað fyrir framan aðra eða eitthvað svoleiðis. Er það þá þannig að það á jafnvel erfitt með að mæta í tíma? Já, og það eru margir sem flosna upp úr skóla einmitt vegna félagsfælni. Hversu algengt er þetta? Það er talið að um það bil 7-13% fólks sé haldið félagsfælni.“

Sóley segir að annar hver maður segist vera feiminn á fullorðinsárum. Það megi líta á hana sem vægan félagskvíða en ekki félagsfælni. Börn sem eru feimin eru ekki endilega félagsfælin.

„Menn hafa þrætt um það í fræðunum hvort feimni sé meira karaktereinkenni og félagskvíði sé meira eins og ákveðin tilfinning sem geti farið úr böndunum og orðið að röskun. En ég lít svo á að feimni sé meira svona vægur félagskvíði en auðvitað getur hún orðið svo mikil að það teljist til félagsælni og þá er ástæða til að gera eitthvað en ég held að það sé allt í lagi að börn séu feimin. En það sem flestir verða innan eðlilegra marka sem fullorðnir, ef þeir fá umhverfi sem hvetur til þess að takast á við hluti, og það sem er svo ofsalega mikilvægt ef barn er feimið, að það er að hvetja það til að takast á við aðstæður frekar en að forðast það.“

Stundum á feimið barn feimna foreldra eða barn með félagskvíða á foreldra með félagskvíða sem skilja það of vel ef barnið vill ekki gera eitthvað og leyfa því að komast hjá því t.d. að fara í skóla eða takast á við eitthvað sem er pínu erfitt. Barnið lærir þá af foreldrum sínum að vera félagskvíðið.

Læknast á fjórum dögum 

Sóley segir að allir séu með félagskvíða sem er eðlilegur upp að vissu marki t.d. þegar maður hittir fólk í fyrsta sinn, þegar maður þarf að halda ræðu eða fara í útvarpsviðtal þá sé eðlilegt að vera smá kvíðinn. Félagsfælni sé hins vegar hamlandi þegar óttinn við álit annarra er farinn að hamla manni í lífinu. 
„Þannig að maður á erfitt með að gera það sem maður vill eða njóta lífsins af því maður er svo skíthræddur alltaf um að vera dæmdur og er orðinn bara mjög kvíðinn til dæmis farinn að óttast mjög að sýna einhver kvíðaeinkenni, roðna eða stama eða missa málið meðal fólks.“

Meðferð við félagsfælni er víða í boð bæði fyrir börn og fullorðna, hópmeðferð og fyrir einstaklinga. Hægt er að fara í tíma einu sinni í viku í nokkrar vikur eða fara á fjögurra daga öflugt námskeið sem getur skilað ótrúlegum árangri. Þar fær fólk þjálfun í því að bregðast við alveg öfugt við það sem félagskvíðinn kallar á.  

„Það er nánast þjálfun í að koma illa fyrir af því þetta er eins og fóbía við það að hafa sig að fífli koma illa fyrir. Fá svolítið bara þjálfun í að tala meira en maður er vanur, taka sénsinn á því að segja eitthvað vitlaust, jafnvel gera í því að segja eitthvað vitlaust, spyrja asnalegra spurninga, gera í því að roðna og allt þetta. Hvað eigum við að segja, það er vont en það venst. Það venst ótrúlega hratt.“

Læra að segja eitthvað vitlaust og heimskulegt

Þannig maður kemur á námskeið til ykkar og fær að klúðra málum í fjóra daga og þá er maður orðinn nokkuð góður í því? „Þá er manni bara orðið skítsama. Þetta er eins og maður færi búð úr búð kannski og segði alltaf eitthvað heimskulegt og svona þannig að maður kæmi alls ekki vel fyrir. Það myndi vekja kvíða fyrst, og kannski jafnvel mjög mikinn kvíða, en þegar maður er búinn að gera það nokkrum sinnum þá fer manni að vera alveg saman og hafa bara nokkuð gaman af því.“

Sóley segir að það sé aldrei of seint að leita sér aðstoðar, sá elsti sem hafi leitað til hennar hafi verið um áttrætt. Mikilvægt sé að byrja snemma að laga félagskvíðann og hvetja börn til hugrekkishegðunar. Algengt sé að fólk leiti sér aðstoðar 20 árum eftir að félagsfælnin hefst og þá hefur hún magnast upp á þeim tíma.

„Fólk er búið að missa af tækifærum, er kannski dottið út úr skóla. Þeir sem eru með félagsfælni þeir þéna minna, þeir ná minni framgöngu í starfi, þeir detta frekar úr skóla, þannig þeir hljóta minni menntun. Þó eru undantekningar frá þessu en þetta hefur veruleg áhrif á líf fólks.“

Fólk á einhverfurófi með félagsfælni af öðrum toga

Sóley segir að sumt fólk á einhverfurófi forðist oft félagslegar aðstæður því því líður illa meðal fólks.
„En það er kannski af öðrum toga en félagsfælni. Félagsfælni er þessi sjúklegi ótti við að aðrir dæmi mann og að maður komi illa fyrir en oft eiga menn í einhverfurófinu eriftt með áreiti. Þau eiga erfitt með að fylgja mörgum spjallþráðum þannig að þegar verið er að tala við einn tvo þrjá þá eiga þeir rosalega eriftt meðað einbeita sér að öllum samtölum sem eru í gangi, halda þræði og þeir hafa jafnvel ekki áhuga af því þeir hafa oft svo takmörkuð eða afmörkuð áhugamál. Þeim finnst fólk sem er ekki á einhverfurófinu kannski bara frekar leiðinlegt jafnvel og eiga erfitt með að halda upp samræðum um það sem þau hafa ekki áhuga á.“ 

Getur leitt til þunglyndis

Sóley segir að kvíðaraskanir fari oft margar saman og það eru meiri líkur en minni á að fólk sé með fleiri en eina kvíðaröskun.  

„Margir verða þunglyndir af völdum félagsfælni af því að fólk missir af tækifærum, til dæmis eru félagsfælnir ekki eins líklegir og aðrir til að gifta sig af því það er bara erfitt að fara og reyna við einhvern og allt þetta, þannig að félagsfælnin leiðir oft til þunglyndis. En góðu fréttirnar eru þær að ef félagsfælni er löguð þá gufar þunglyndi bara oft upp, því fólk er alsælt ef það getur talað við fólk án þess að vera eitthvað að stressa sig á því.“

„Þetta getur sem sagt orðið það alvarleg að fólk verður þunglynt? Já, af því fólk einangrast oft mjög mikið vegna félagsfælninnar eða að þetta verður alltaf eilíf kvöl og pína. Ég meina, margir fara meðal fólks og láta sig hafa þetta en það er alltaf kvöl og pína, allar veislur, fermingar, allt þetta, ef fólk getur ekki notið þessara hluta þá er það dálítið erfitt.“