Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu vilja fá leyfi til að innheimta mengunar- og tafagjöld í borginni. Þetta kemur fram í tillögum Verkefnahóps um samgöngumál á höfuðborgarsvæðinu um uppbyggingu á höfuðborgarsvæðinu sem kynntur var fyrir helgi. Borgarstjóri segir stóru tíðindin vera breið samstaða ríkis og sveitarfélaga um uppbygginu umferðarmannvirkja á Höfuðborgarsvæðinu.
Hópurinn vill setja Borgarlínu inn á samgönguáætlun og leggur áherslu á að bæta flæði á stofnvegum og stuðla að breyttum ferðavenjum íbúa - en það er liður í því að draga úr umferðarteppum og mæta skuldbindingum í loftslagsmálum.
Verkefnahópurinn leggur áherslu á að bæta flæði á stofnvegum og stuðla að breyttum ferðavenjum íbúa - en það er liður í því að draga úr umferðarteppum og mæta skuldbindingum í loftslagsmálum. Hluti af því sé að setja Borgarlínu í forgang.
Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra segir mikilvægtast að ná sameiginlegri sýn ríkisins og sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu um uppbygginu samgönguinnviða. „Aðalverkefnið í þessu er að ná sameiginlegri sýn ríkis og allra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu um uppbyggingu annars vegar stofnvegakerfisins sem er nauðsynlegt því hér verður aukning í einkabílaumferð alveg sama hvað við gerum, hins vegar að verða sammála um þá leið sem menn eru að leggja af stað með með þessar hágæða almenningssamgöngur.“
Hópurinn vill að framkvæmdir við Borgarlínu verði komnar á fullt skrið árið 2021 og er lagt til að á næstu þremur árum verði ráðist í innviðauppbyggingu fyrir 16,3 milljarða króna. Þær leiðir sem hópurinn vill byrja á tengja Ártúnshöfða, Hlemm, HÍ, Landspítalann, HR, Kársnes og Hamraborg. Á næstu 15 árum er lagt til að ráðist verði í Borgarlínuframkvæmdir fyrir 42 milljarða króna.
Til að fjármagna framkvæmdirnar vill hópurinn leita nýrra leiða, hann leggur til veggjöld en líka innviðagjöld. Útfærslan á þeim liggi þó ekki fyrir.
„Við erum smátt og smátt að missa tekjur af bensín og díselgjöldum, jafnvel strax árið 2025 er talað um að þau geti verið búin að lækka um 25 til 50%. Það er ljóst að við þurfum að fara í einhvers konar breytta gjaldtöku af vegakerfinu sem yrði meira afnotamiðuð. Þar til viðbótar hafa borgaryfirvöld verið að skoða hvort skynsamlegt sé að setja upp gjaldtöku eins og gert er í mörgum borgum, svokölluð mengunar og tafagjöld.“
Hópurinn lagði í raun til breytingartillögu við samgönguáætlun og tekur umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis nú við henni. Ráðherra hyggist ræða tillögurnar í nefndinni í næstu viku.
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir stóru tíðindin í þessu vera breið samstaða ríkis og sveitarfélaga um að ráðast í verkefnin á Höfuðborgarsvæðinu. „Útfærslan er eftir á þessum veggjöldum. Ríkið hefur lagt veggjöld og tafagjöld til sem leið til þess að flýta mikilvægum samgönguframkvæmdum bæði í stofnvegum og í borgarlínu. Sveitarfélögin eru opin fyrir því og fagna því að fá að koma að henni. Í mínum huga er ekki búið að slá neinu föstu um útfærslu, það er einfaldlega eftir,“ segir Dagur.
„Einhverjar borgir hafa notað þetta til þess að stýra umferðinni, ekki aðeins til þess að innheimta gjöld.“ Dagur segir að það eigi eftir að skoða betur hvernig hægt væri að nota þessi tæki í Reykjavík.