Keppni á Evrópumótinu í áhaldafimleikum lauk í Póllandi í dag. Eyþóra Elísabet Þórsdóttir komst á verðlaunapall.
Eyþóra sem er tvítug keppir fyrir Holland, enda búið þar alla ævi, þó foreldrar hennar séu báðir alíslenskir. Eyþóra endaði í 11. sæti í fjölþrautarkeppninni á föstudag, en fékk í þeirri keppni fjórðu hæstu einkunnina í gólfæfingum. Eyþóra komst því í úrslit í keppni á einstökum áhöldum í gólfæfingunum og reið á vaðið úrslitunum í dag.
Eyþóra keppti á Ólympíuleikunum í Ríó fyrir þremur árum með góðum árangri og fylgdi því eftir með silfri í jafnvægisslá og brons fyrir gólfæfingar á EM 2017. Hún missti hins vegar af HM í fyrra vegna meiðsla, en kom sterk inn á EM í Póllandi. Gólfæfingar Eyþóru skiluðu henni 13,666 stigum. Aðeins hin franska Melanie de Jesus dos Santos fékk hærri einkunn fyrir sínar gólfæfingar í dag. Eyþóra vann því til silfurverðlauna á Evrópumótinu og lofar svo sannarlega góðu fyrir HM sem verður haldið í Stuttgart í Þýskalandi í október.
Hægt er að sjá gólfæfingar Eyþóru í spilaranum hér fyrir ofan.