„Ég er bara í skýjunum. Ég held ég hafi aldrei verið jafn ánægð á ævi minni.“ segir Eygló Ósk Gústafsdóttir sem er hetja dagsins í íslensku íþróttalífi eftir að hafa náð besta árangri sem íslensk sundkona hefur náð.

Eygló vann til bronsverðlauna í 100 metra baksundi á Evrópumótinu í 25 metra laug. Hún sló sólarhringsgamalt Íslandsmet sitt um 0,97 sekúndur með því að synda á 57,42 sekúndum. Hún var 25 hundruðustu úr sekúndu frá silfurverðlaununum og sléttum tveimur sekúndum frá gullinu sem heimsmethafinn Katinka Hosszu frá Ungverjalandi vann.

„Vonandi hvetur þetta alla á Íslandi, bæði í sundi og öðrum íþróttum til þess að halda áfram að æfa og komast eins langt og þeir geta.“

Langt fram úr eigin væntingum

Eygló átti ekki von á þessum árangri sjálf. „Ég hafði ekki hugmynd sko. Markmið mitt var að fara á undir 58 sekúndum, synda hratt og hafa gaman. Þetta fór langt fram úr mínum væntingum.“ sagði Eygló í símtaviðtali við RÚV sem má heyra í heild sinni í spilaranum hér að ofan.