Þættirnir Líf eftir dauðann verða frumsýndir á RÚV um páskana, en þar leikur Björn Jörundur Friðbjörnsson miðaldra poppara sem á að keppa fyrir Íslands hönd í Eurovision, en allt fer úr skorðum þegar móðir hans deyr. Gert hefur verið tónlistarmyndband við lagið „You Need To Know“, sem er Eurovision framlag Íslands í þáttunum.

Leikstjóri er Vera Wonder Sölvadóttir en hún og Björn Jörundur voru gestir Morgunútvarpsins á Rás 2 í dag. Viðtalið í heild má heyra hér fyrir ofan.

Vera segir að þættirnir séu að einhverju leyti skrifaðir í kringum Björn Jörund. „Hann er bara svo yndislegur leikari og frábær karakter, við erum öll pínu ástfangin af honum.“ Hún segir að gerð þáttanna hafi gengið framar vonum. Þeir gerast í óræðum bæ á Íslandi en voru að mestu teknir upp á Akranesi, Höfn í Hornafirði og í Reykjavík.

Aðalhlutverkinu fylgdi það hlutverk að semja Eurovision-lagið, segir Björn Jörundur. „Lagið þarf að vera í ákveðnum standard til að myndin haldi trúverðugleika. Þannig að við vönduðum okkur mikið við lagið.“ Lagið er á ensku og fékk Björn aðstoð frá Merði Árnasyni við gerð enska textans, en hann lagðist mjög gegn því að Ísland sendi lög á ensku í Eurovision á sínum tíma. Ákveðið var að fara alla leið og gera tónlistarmyndband líka.

Líf eftir dauðann er í tveimur hlutum og verður á dagskrá RÚV á páskadag og annan í páskum. Það fer allt úr skorðum í litlum bæ úti á landi þegar fyrirmæli koma af æðstu stöðum úr borginni um að flýta jarðarför eldri konu sem dó daginn áður og verið er að kryfja. Sonur hennar, miðaldra poppari, er á leiðinni til Lettlands til að keppa í Eurovision fyrir Íslands hönd þegar móðir hans deyr skyndilega. Hann er ógiftur og barnlaus, einkasonur móður sinnar og tæpur á taugum eftir áfengismeðferð. Hann verður miður sín af sorg og vill hætta við keppnina til að jarða móður sína. Þá brestur á hið þekkta íslenska „reddum því syndróm“  – og hringt er í æðstu menn þjóðfélagsins til að bjarga málum.

Það er hins vegar fólkið í litla bænum sem situr í súpunni og myndin er um það hvernig þau reyna sitt besta til, en beita samt ýmsum vafasömum ráðum, til að redda málunum þegar þessi skyndijarðarför setur þéttskipaða dagskrá þeirra í lífsgæðakapphlaupinu í uppnám. Tilfinningin sem situr eftir í sögulok er að í neyslusamfélagi nútímans sé hvorki tími né pláss fyrir dauðann.