Jon Ola Sand, framkvæmdastjóri Eurovision, Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva, er á leið til Íslands og verður viðstaddur úrslit Söngvakeppninnar sem fram fara í Laugardalshöll 2. mars.

Hann segir ótrúlegt hversu mikil gæði séu í íslensku undankeppninni ár eftir ár, sérstaklega ef litið er til smæðar þjóðarinnar. Hann segir Eurovision mikilvægt sameiningartákn og ítrekar að Ísland vinni keppnina einhvern tímann. Jon Ola er á fleygiferð þessa dagana en ætlar að gefa sér tíma til að stoppa á Íslandi og fylgjast með úrslitum Söngvakeppninnar í fyrsta skipti. 

„Ég er mjög heillaður af gæðum laganna í undankeppninni hér á Íslandi. Það er ótrúlegt að jafnlítið samfélag og það íslenska er framleiði jafnmikið af hæfileikafólki og góðum söngvurum. Ég veit að tónlistararfur og hefðin á Íslandi er mjög sterk þannig að framlög ykkar eru alltaf mjög vel þegin,“ segir Jon Ola í viðtali við Morgunkaffið. Hann hefur verið að hlusta á lögin fimm sem eftir eru og viðurkennir að hann eigi sitt uppáhaldslag en eins og sannur fagmaður gefur hann ekkert upp.

Þessar vikur eru verkefnum hlaðnar hjá framkvæmdastjóra Eurovision, sem getur fyrst slakað á eftir lokakeppnina í Tel Aviv. „Frá miðjum janúar þangað til úrslitakvöldið fer fram er ég mjög upptekinn. Það þarf að huga að fjölmörgum smáatriðum og við vinnum náið með ísraelska sjónvarpinu að því að gera allt reiðubúið í tíma. Það er alltaf flókið að halda Eurovision og það eru ný úrlausnarefni á hverju ári. Ísraelska teymið er hins vegar mjög faglegt sem og alþjóðlega Eurovision-teymið þannig að ég er sannfærður um að við munum framleiða frábæra sjónvarpsviðburði í maí.“

Hér á Íslandi hafa mótmæli heyrst vegna staðsetningar keppninnar. Hefur sú umræða borist Jon Ola til eyrna og jafnvel haft áhrif? „Ekki á mig persónulega því ég vinn fyrst og fremst á þessum faglega grundvelli að viðburðunum. En jú, einhverjir ætla sér að sniðganga keppnina vegna þess að hún er í Ísrael. En ég minni alla á að keppnin er haldin til þess að sameina en ekki sundra. Einu sinni á ári komum við saman og fögnum góðu hlutunum sem við deilum og ég held að það verði nákvæmlega þannig í ár. Ég er líka sannfærður um að allir listamenn og sendinefndir munu skemmta sér vel og standa heilshugar á bakvið hugmyndafræði Eurovision og sameinast um friðsamlega keppni í maí.“

Í lokin ítrekar Jon Ola það sem hann hefur áður sagt í viðtali við RÚV, að sá dagur renni sannarlega upp þegar Ísland vinnur Eurovision. „Það væri frábært að halda Eurovision á Íslandi, ég væri mjög spenntur fyrir því. Ég veit auðvitað ekkert hvað gerist í ár, myndi aldrei vita það á þessum tímapunkti en einn daginn vinnur Ísland og keppnin verður haldin hér og ég hlakka til þess.“

Úrslit Söngvakeppninnar fara fram laugardaginn 2. mars í Laugardalshöll. Eleni Foureira, sú sem lenti í 2. sæti í keppninni í Lissabon í fyrra kemur fram ásamt fleiri frábærum listamönnum.