Af hverju blótum við og bölvum? Hvers vegna blóta sumir meira en aðrir? Hvaða orð er verst að segja og af hverju? Lektor í málvísindum leiddi hlustendur í gegn um rætur eðli og þróun blótsyrða á Íslandi með sérfræðingi í málvísindum og þær komust að því að við getum notað ljót orð sem tæki til að takast á við sársauka og fá útrás og sum orð eru vissulega verri en önnur.

Við vörum lesendur og hlustendur við grófu orðbragði sem verður viðhaft í þessari umfjöllun og mælumst ekki til þess að það verði haft eftir. 

Blótsyrðin hjálpuðu til við sársaukann

Kristín Margrét Jóhannsdóttir, lektor í málvísindum við Háskólann á Akureyri, hefur lengi rannsakað notkun tungumálsins við hinar ýmsu aðstæður. Hún ræddi við Sunnu Valgerðardóttur um blótsyrði og ljót orð.

Hvers vegna blótar fólk? Kristín tekur dæmi um nýlega rannsókn þar sem fólk var látið stinga hendinni ofan í ískalt vatn og tekinn tíminn hversu lengi það þoldi að halda henni þar.

„Það kom í ljós að þegar fólkið fékk að bölva, þá gat það haldið sér miklu lengur ofan í vatninu. Þannig að bölvið virtist virka sem einhvers konar hvatning til þeirra að þola sársaukann eða hvað. Þetta er eitthvað sem kemur ósjálfrátt ef eitthvað er vont, erfitt eða sárt. Ef maður er til dæmis að negla og lemur í puttann, kemur yfirleitt eitthvað blótsyrði upp sem er ekki úthugsað. Það kemur eitthvað sjálfkrafa.”

Er ljótt að blóta?

Við blótum mismikið. Sumir segja að karlar blóti meira en konur, tilteknar sveitir hafa á sér orð fyrir að vera orðljótar og sumir blóta bara alls ekki, vegna þess að það er ljótt að blóta. Er það ekki annars?

„Það eru reyndar ekkert allir sammála um hvort við ættum að blóta eða ekki. Sumir segja að þetta sé nauðsynlegur hluti af tungumálinu, ég held að þetta sé vegna þess að þetta er oft neikvæð o rð. Í íslensku, eins og við vitum, tengjast þau djöflinum  og helvíti mjög mikið, sérstaklega kristnir vilja kannski ekki láta vísa mikið í þann óþjóðalýð,” segir Kristín. 

Sjitt og fokk

Vísindavefur Háskóla Íslands var spurður fyrir rúmum áratug hvort hægt væri að blóta á íslensku án þess að sækja blótsyrðin í kristindóminn. 
 
Þar svarar Guðrún Kvaran prófessor að orðið "blót" standi fyrir ýmislegt, meðal annars guðsdýrkun og síðar bölv eða ragn. Síðari skýringin varð til eftir að kristin áhrif skilgreindu blót sem syndsamlegt, það er að ákalla heiðin goð. Síðar, þegar kristni hafði náð varanlegri festu, þótti sambærilega ósiðsamlegt að ákalla ill öfl í neðra og heiðin goð áður. Þannig urðu til blótsyrðin andskotans, djöfulsins, fjandans og helvítis.
 
Þá segir líka, eins og Kristín bendir á, að dálítið beri á að menn grípi til blótsyrða í talmáli sem tíðast í ensku. Þar má nefna sjitt, sem í Íslenskri orðabók er sagt lýsa óánægju eða vanþóknun og er merkt með tveimur spurningarmerkjum en þau vísa til þess að um sé að ræða ,,framandorð sem vafi leikur á hvort talist getur íslenskt, sletta" Á sama hátt er merkt orðið fokking sem tekið er beint -úr ensku og í orðabókinni er sagt notað í merkingunni 'leiðinda, djöfulsins'. Þess má svo að lokum geta að þessi blótsyrði og þá sérstaklega fokking eru að öllu jöfnu ekki eins gróf á íslensku eins og þegar þau eru notuð í enskumælandi löndum.

Dæmi: Andskotinn, andskotans, djöfull, djöfulsins, helvíti, helvítis, ansans, ansvítans, árans, bévítans, déskotans, skollans, assvítans, rækallinn, skrambans, óhræsis, ólukkans, ótætis. 

Éttu eilífan hund

Á þeim stórskemmtilega vef Orðanet.is er hægt að skoða fjöldann allan af íslenskum blótsyrðum, formælingum og setningum sem hafa verið notaðar til að bölva hinum og þessum í gegn um tíðina. Töluvert er vísað til djöfulsins eða helvítis, en svo er fólki gjarnan skipað að éta hitt og þetta, stundum hund eða eithvað súrt. 

Fleiri dæmi: 

Djöfullinn í því sótsvarta hirði þig - Éttu andskotann upp úr súru - Farðu guði á vald í grátt brókarhald - Farðu í heiðgult hóandi helvíti - Farðu í hoppandi hærusekk - Éttu eilífan hund - Farðu í hurðarlaust horngrýti - Þú mátt fara í bölvaðan rass og svo getur þú étið andskota með súru undan sjálfum þér. 

Níðvísur er annað form af bölvunum, þar sem ljóðaformið er notað til að segja fólki að fara til fjandans. 

Þú sæmir þér ekki með sauðum,
Því sauðir þeir iðk'ekki prett.
Þú gengir að djöflinum dauðum-
ef drægjust þið saman í rétt.

- Höfundur ókunnur

Kristrún heitir kona flá,
kjafta beitir nöðrum,
flær og reytir mest sem má
mannorðsfeiti af öðrum.

- Eyjólfur Jóhannesson

Hommi, hóra, mella, tík,
hálfviti og belja.
Asni, auli, fífl og frík,
flyðra, sonur helja    

- Viktor, 8 ára (fæddur 1989)

Ógeðslega fallegt og tussufínt

Bölvanir og skammaryrði hafa síðan snúist upp í andhverfu sína og við notumst við neikvæð orð í jákvæðri merkingu, sem áhersluatviksorð. Nokkur dæmi eru geðveikt gott, helvíti vel gert, ógeðslega fallegt, djöfull gaman, andskoti flott og tussufínt. 

Svo þekkja flestir Íslendingar til Kolbeins nokkurs kapteins, sem er þekktur fyrir að ná að bölva og ragna án þess þó beinlínis að segja ljót orð. Vísindavefurinn hefur eftirfarandi setningu eftir Kolbeini: 
 
„Fari það í þúsund trilljón tryllta, tarfóða, tólgsadda, tannhvalsétandi, termítabitna túnfiska í Trékyllisvík!”

Kristín segir að fólk losi orku og fái útrás við að blóta og bölva. Það geti því verið að það sé alls ekki eins slæmt og sumir segja, að blóta stöku sinnum.