„Ég fer aldrei inn í neina keppni hvorki með landsliði eða félagsliði vitandi það að ég eigi einhverja stöðu, en það er auðvitað þægilegt að hafa fengið traustið sem aðalmarkvörður að undanförnu,“ sagði Guðbjörg Gunnarsdóttir landsliðsmarkvörður í viðtali við RÚV á landsliðsæfingu í dag.

Guðbjörg verður væntanlega í marki Íslands sem tekur á móti Hvíta-Rússlandi í fyrsta leik undankeppni EM 2017 annað kvöld. Leikurinn hefst á Laugardalsvelli klukkan 18.45 og verður sýndur í beinni útsendingu á RÚV.

Telja sig vel undirbúnar

„Við áttum fínan fund í dag og fórum yfir leik Hvíta-Rússlands gegn Hollandi nýlega. Svo sáum við líka upptökur af öðrum leikjum. Þannig við teljum okkur vel undirbúnar fyrir leikinn á morgun,“ sagði Guðbjörg meðal annars.

„Við ætlum okkur klárlega á EM, þannig að Ísland eigi karla- og kvennalandslið í lokakeppni EM og svo í lokakeppni EM í handbolta og körfubolta. Þannig við viljum halda áfram að senda út þau skilaboð að við erum snarklikkaðir víkingar,“ sagði Guðbjörg.

Viðtalið við Guðbjörgu má sjá í heild sinni í spilaranum hér fyrir ofan.