Slæmt ástand er við Elliðavatn að mati framkvæmdastjóra heilbrigðiseftirlits Hafnarfjarðar og Kópavogs. Hreinsa þurfi burtu glerbrot og spilliefni sem fyrst svo ekki skapist hætta fyrir þá sem fara um svæðið. Framkvæmdastjóri eftirlitsins segir afar óánægðir með ástandið.

Slæmt ástand er á yfirgefnum sumarbústöðum við suðvesturhluta Elliðavatns. Fram kom í fréttum RÚV í gær að skemmdarverk hefðu verið unnin á bústöðunum. Bæði glerbrot og spilliefni eru við bústaðina sem standa við vatnsbakkann. Bústaðirnir eru í Kópavogi. Heilbrigðiseftirlit Hafnarfjarðar og Kópavogs ákvað í dag að kanna ástandið.

„Það er mjög slæmt. Við erum mjög ósáttir með hvernig ástandið er hér. Það hefur farið versnandi. Við þurfum bara í samstarfi við Kópavogsbæ að sjá um að hér sé hreinsað,“ segir Hörður Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlit Hafnarfjarðar og Kópavogs.

 

Öryggissvæði vatnsverndar er skammt frá bústöðunum sem eru í niðurníslu.

„Ég held að það sé nú ekki hætta gagnvart vatnsverndinni sem slíkri en auðvitað stendur bara ógn af þessu eins og þetta er,“ segir Hörður.

Grunnvatnsstraumur Elliðavatns er þannig að eiturefni frá bústöðunum eiga ekki að berast inn á vatnsverndarsvæði. 

„Þetta er náttúrulega bara heilsuspillandi og hættulegt umhverfinu og hættulegt þeim sem hér ganga um. Hér þarf náttúrulega bara hreinsunarátak að eiga sér stað,“ segir Hörður.

Kópavogsbær hefur um nokkra hríð reynt að fá landeiganda til að hreinsa svæðið en án árangurs. 

„En ég held að núna sé bara þörf á því að við tökum höndum saman og reynum að láta hreinsa svæðið. Við getum beitt einhvers konar þvingunaraðgerðum en samstarfið þarf að vera við alla,“ segir Hörður.

Þannig að það verður gripið til einhverra aðgerða fljótlega?

„Já það tel ég alveg víst,“ segir Hörður.