Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, sagði að loknum fundi hjá Ríkissáttasemjara í hádeginu að búið sé að boða annan fund í næstu viku í kjaraviðræðum við Eflingu, VR, Verkalýðsfélag Akraness og Verkalýðsfélag Grindavíkur. Það sé góðs viti að viðræður séu enn í gangi. Farið hafi verið vítt og breytt yfir sviðið á fundinum í morgun.

Fundur forystumanna Eflingar, VR, Verkalýðsfélags Akraness og Verkalýðsfélags Grindavíkur með Samtökum atvinnulífsins og Ríkissáttasemjara hófst klukkan tíu í morgun. Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, sagði á mánudag að ef ekki verði einhver árangur í viðræðum hjá sáttasemjara í dag sé ekki ólíklegt að viðræðunum verði slitið og byrjað verði að huga að leiðum til að ná kröfunum fram. Hugsanlega verði lagt fram ákveðið aðgerðaplan. 

Halldór segir að farið hafi verið yfir ýmislegt á fundinum í morgun, meðal annars kostnaðarmat kröfugerðanna. „Og eins reyndum við að nálgast einhvers konar hugmyndir um svigrúm atvinnulífsins til launahækkana.“

Ber ennþá mikið í milli? „Vinnan er í gangi, það er það sem ég get sagt þér á þessu stigi en við erum ennþá að hittast og það er góðs viti,“ segir Halldór Benjamín. Búið sé að boða annan fund í næstu viku. 

Jóhann Bjarni Kolbeinsson fréttamaður ræddi við Halldór Benjamín að loknum fundi. Hægt er að horfa á það í spilaranum hér fyrir ofan.