Sunna Gunnlaugs djasspíanisti hefur unnið að því á síðustu árum að fjölga konum í djasstónlist og rekist á ákveðnar hindranir. Svo virðist sem konur haldi sig frekar á jaðrinum í djassinum og eigi erfitt með að gera sig sýnilegar.
„Konur hafa fælst frá senunni svo lengi. Ég held að þær hafi átt erfitt með að komast inn á senuna og dafna þar,“ segir Sunna Gunnlaugs um stöðu kvenna innan djasstónlistar á Íslandi og víðar. Konur hafi leitað út á jaðarinn og í önnur verkefni. Hún hefur sett sér það markmið að auka hlut kvenna innan geirans, en það hefur ekki reynst auðvelt að laga kynjahallann.
„Konur sem hljóðfæraleikarar hafa ekki verið sýnilegar í djassi. Það er eitt af skrefunum sem við teljum mikilvægt í dag er að gera konur sýnilegar til þess að efla kynslóðina sem er að koma upp núna svo að stelpur sjái sig á sviðinu. „Ég get verið bassaleikari og spilað hvaða tónlist sem er.““
Danir hafa löngum staðið sig vel á þessu sviði segir hún. „Þeir eru að leggja sérstaka áherslu á alls konar námskeið fyrir ungar stelpur 11-12 ára þar sem þær koma og spila rytmíska tónlist. Á þessum aldri finnst þeim strákar svo óþroskaðir og njóta sín betur meðal stelpnanna og þær styrkjast. Þegar þær eru orðnar aðeins eldri þá eru þær búnar að fá reynslu með að spila, komnar með trú á sjálfa sig og þá blandast böndin betur.“
Aðrar norrænar þjóðir standa framar Íslandi
Á Íslandi er ekki starfandi svokölluð djassstofa, líkt og finna má annars staðar á Norðurlöndum og er á fjárlögum hjá ríkinu. „Hin Norðurlöndin hafa öll djassstofur sem hafa starfað í áratugi. Í Noregi eru djassstofur í hverjum landshluta og þau eru öll félagar í Europe Jazz Network. Það kemur alltaf heill her frá Noregi á ársfundinn. Þannig að þeir standa mjög framarlega í djassi og útflutningi á djassi.“
Möguleg lausn væri að koma á fót hlutastörfum innan ÚTÓN, með sérhæfingu í ákveðnum tónlistargreinum segir Sunna. „Það væri ein manneskja sem myndi sérstaklega sinna djasstónlist og önnur sem myndi sinna klassík. Þetta eru ólíkar greinar, það hefur verið mikil áhersla á indí-popp og það er ólíkt hvernig þessar greinar fúnkera. Þannig að það væri æskilegt að einhver myndi helga sig hinu.“
Tónleikaröð í Listasafni Íslands
Hún hefur að undanförnu staðið fyrir tónleikaröð í Listasafni Íslands sem nefnist Freyjujazz og hefur það markmið að skapa tækifæri fyrir konur innan greinarinnar. Verkefnið hefur borið ávöxt segir hún. „Alls konar bönd hafa tekið sig saman, þær eru farnar að semja og útsetja fyrir þetta verkefni þannig að þær eru orðnar atkvæðameiri á djasssenunni.“
En betur má ef duga skal. Enn reynist erfitt að finna konur sem helga sig djassi og það er ekki bundið við Ísland. Konur hafa leitað út á jaðarinn víðar. „Margar hátíðir og klúbbar tala um að það sé svo erfitt að finna konur sem eru á miðjunni og geta náð til stórs hóps hlustenda.“
Rætt var við Sunnu Gunnlaugs í Morgunútvarpi Rásar 2.