Er eitthvað til sem heitir lágmenning eða hámenning? Sumir fræðimenn segðu að þetta sé bara tilbúningur, aðrir að orðin standi bara fyrir afstöðu yfirstéttar til menningarafurða alþýðunnar, en hvað sem því líður liggur fyrir að þessi fyrirbæri eru þekkt og það sem meira er, margir geta hugsað sér þau í samtímanum. Reynum að átta okkur á hvað lágmenning og hámenning eru.
Gauti Kristmannsson skrifar:
Lágmenning er menning alþýðu, óskóluð, kannski meira sjálfsprottin á meðan hámenningin svokallaða tilheyrir frekar yfirstétt eða elítum, hún er skóluð, tillærð, oft með ærnum tilkostnaði í peningum og tíma og hún nýtur oft sérstaklega mikils stuðnings stjórnvalda á meðan lágmenningin svokallaða þarf að standa sig á markaði ef svo má segja. Rás 2 var reyndar á sínum tíma stofnuð til að sinna því sem margir töldu vera lágmenningu, en er það sem fram fer hér á Rás 1 endilega einhvers konar hámenning? Hér heyrast bæði sinfóníur og rokkhljómsveitir, en það fer þó ekki hjá því að hér fer dálítið settlegri umfjöllun fram en á Rás 2, að ekki sé talað um aðrar útvarpsrásir á markaði.
Skilin eru sem sagt ekki alveg skýr þótt oft megi greina þennan þankagang, en það var ekki alltaf svo og það er svolítið skemmtilegt til að hugsa að hér á landi varð þróunin dálítið öðruvísi, einmitt þegar há- og lágmenningin rákust harkalega á um miðja nítjándu öld. En með svolítilli einföldun má halda því fram að fram að alþýðumenning hafi verið nánast verið einráð hér um aldir, a.m.k. eftir að „gullaldir“ ritaldar á Íslandi á 13. og 14. öld voru liðnar. Allan þennan tíma réðu rímur ríkjum, þótt vitaskuld hafi ýmislegt annað verið ort og skrifað, oft endurskrifað, en rímur voru líkast til vinsælasta menningarefni Íslendinga vel fram á nítjándu öld og jafnvel eitthvað lengur. Svo rammt kvað að þessu að upplýsingarmaðurinn Magnús Stephensen kvartaði yfir rímnaýlfri þjóðarinnar og taldi það merki um afturhald og búraskap.
Ballöður og aristókratísk yfirstéttarmenning
Ef við skoðum hvað var að gerast í útlöndum á svipuðum tíma, svona frá upphafi nýaldar fram á þá nítjándu, þá má sjá bæði svipaða og ólíka þróun; eins og fyrr má með nokkurri einföldun segja að þróast hafi um langa hríð alþýðleg söguljóðamenning á borð við ballöður og var þessi kveðskapur ekki ólíkur rímum að efni og eðli, enda skemmtun við alþýðu hæfi. Á sama tíma, ólíkt því sem var hér á landi (nema kannski meðal íslenskra menntamanna í Kaupmannahöfn), var til hámenning, aristókratísk yfirstéttarmenning, byggð velunnaraveldi aðalsmanna og síðar auknum auði borgarastéttarinnar, sem vildi líkja eftir yfirstéttinni í menningarmálum eins og öðru.
En á átjándu öld breyttist eitthvað í Evrópu, kannski vegna þess að borgarastéttin var að losna úr viðjum lénsskipulagsins eins og við höfum heyrt söguskýrt, eða prentverkið og almenn menntun var farin að valda raunverulegum þjóðfélagsbreytingum. Upplýsingin var í algleymingi og hún var í traustum höndum menntamanna og borgarastéttarinnar. Hún hallaðist líka mjög að hámenningu með vísan til klassískrar fornaldar og var gríðarlega reglubundin í alla staði.
En þá gerðist eitthvað sem breytti stöðunni í Evrópu býsna mikið. Fram komu menn sem tóku að líta í aðrar áttir, til dæmis til þeirra tíma áður en menn urðu siðmenntaðir, eins og Jean-Jacques Rousseau sem ritaði ritgerð gegn listum og vísindum sem uppeldistækjum og síðar sína frægu ritgerð um ójöfnuð milli manna, en segja má að með þessum verkum sé „villimaðurinn göfugi“ kominn í heiminn. Aðrir menntamenn, eins og hinn þýski Gotthold Ephraim Lessing vildu líta frá Frökkum og klassisma þeirra til norðurs, til Shakespeares og síðar komu fram menntamenn sem vildu skoða norrænar bókmenntir, einn sagnfræðingur Danakonungs, Paul-Henri Mallet, Johann Gottfried Herder og ekki síst sagnfræðingurinn merki August Ludwig Schlözer, en hann skrifaði litla en merka bók um íslenskar bókmenntir og sögu þegar árið 1773.
Uppgötvun ljóða Ossíans
Það var eitthvað að gerast og það sem kannski hafði mest áhrif á þessa þróun var „uppgötvun“ og þýðing ljóða Ossíans í Skotlandi árið 1760. Þýðandinn ungi, James Macpherson, var fenginn af elítunni í Edinborg til að safna alþýðusöngvum gelískumælandi Skota í Hálöndunum og þýða á ensku. En ekki aðeins þýða, heldur einnig ritstýra og setja upp í klassískan búning hámenningar, þetta urðu tvö epísk söguljóð, Fingal og Temora, sem slógu svo gjörsamlega í gegn að aðeins er hægt að líkja við Bítlana. Útbreiðsla ljóðanna var með slíkum ólíkindum að þýðandinn ungi varð vellauðugur á nokkrum árum og þau voru þýdd á tugi tungumála, í brotum eða heild.
Samtímis mættu þau miklum mótbyr á Bretlandseyjum, Írar töldu þau vera stolin þjóðkvæði sín og Fingal væri Fionn mac Cumhaill. Á sama tíma töldu enskir menntamenn á borð við Samuel Johnson þetta falsanir og tilbúning og einhvern tíma þegar hann var spurður hvort einhver nútímamaður gæti ort svona ljóð svaraði hann, „já herra minn, margir menn, margar konur og mörg börn.“ Deilurnar tóku heila öld og er raunar enn ekki lokið, því enn má sjá virðulega fræðimenn froðufella af bræði yfir svikum Macphersons, en á sínum tíma voru þetta langvinsælustu textar sem uppruna sinn áttu á Bretlandseyjum og voru þeir þýddir margfalt á við aðra og er þar Shakespeare ekki undanskilinn. Hér á Íslandi þýddu menn eins og Bjarni Thorarensen, Jón Espólín, Jónas Hallgrímsson, Sveinbjörn Egilsson, Grímur Thomsen og Steingrímur Thorsteinsson brot úr þessum kvæðum og á Jónas að hafa kunnað danska þýðingu Steens Blichers utan bókar.
Klassískt verk úr þjóðmenningunni
En hvað bjó þarna að baki, ekki síst hrifningu evrópskra menntamanna? Það var sú einfalda staðreynd að Macpherson hafði tekist að „finna“ og setja fram „klassískt“ verk úr þjóðmenningu sinni, smáþjóðar gelískumælandi Skota og þar með var menningarleg ímynd þeirra vaxin upp úr öllu valdi, enda var þessum kvæðum líkt við Hómerskviður af fjölmörgum málsmetandi mönnum. En hvað hafði Macpherson fundið? Hann taldi sig hafa fundið epísk ljóð sem rekja mætti aftur til þriðju aldar eftir Krist sem varðveist hefðu í munnlegri geymd allt fram til hans dags. Sumt var einnig í gömlum handritum, ballöður og ýmis söguljóð eins og rímur. Hann tók sem sagt alþýðumenningu landa sinna og þýddi hana inn í klassísk form og framsetningu og breytti henni þannig úr lágmenningu í hámenningu.
Þetta var það sem þjóðernislega þenkjandi menntamenn um alla Evrópu skildu svo vel og þeir tóku upp þennan þráð um alla álfuna, söfnuðu eins og vitlausir menn alþýðukveðskap sinnar þjóðar og fyndist hann ekki mætti svo sem alveg semja eitthvað nýrra í þeim stíl. Rómantísku skáldin tóku svo upp þráðinn frá alþýðumenningunni og er kannski Lyrical Ballads þeirra Coleridges og Wordsworths besta dæmið um það. En lykilatriðið er að alþýðumenningin var gerð að klassískum burðarási nýrra þjóðarbókmennta.
Hábragur og lágbragur
En hvað gerðist hér á Íslandi? Merkilegt nokk, þá má halda því fram hér hafi þetta ekki gerst með þessum hætti. Lykilmaður í þeirri þróun var þjóðskáldið Jónas Hallgrímsson. Eins og allir vita var Jónas mikilvirkur og mjög mikilvægur ljóðaþýðandi og sum af hans frægustu ljóðum, eins og Ísland feta einstigi milli þýðingar og endurritunar. Merkilegasta verk hans á því sviði voru þó þýðingar hans á erlendum bragarháttum inn í íslenskt ljóðmál og má segja að hann hafi gefið tungunni nýja tjáningarmöguleika með þeim hætti. Guðmundur Andri Thorsson kvað Jónas einmitt vera að yrkja undir því sem hann kallar „hábrag“ á meðan kveðskapur hans undir rímnaháttum væri „lágbragur“.
Jónasar hefur löngum verið minnst fyrir að vera frumkvöðull rómantíkur hér á landi, en hann átti eitt mjög sameiginlegt með upplýsingarmanninum Magnúsi Stephensen: hann þoldi ekki rímnaýlfur, ef marka má ritdóm hans um rímur Sigurðar Breiðfjörðs af Tristrani og Ísöndu. Þar tekur þjóðskáldið alþýðukveðskapinn og rífur hann í sig með mjög menntuðum og tæknilegum hætti, og segja sumir að rímurnar hafi ekki borið sitt barr eftir það. Það má liggja milli hluta, en kannski fékk íslensk alþýðumenning ekki þá gloríu sem hún fékk annars staðar. En ef til vill var þess ekki þörf þar sem við áttum fyrir klassískar miðaldabókmenntir sem stóðust allan samanburð.