Tómas Ævar Ólafsson segir það ekki skrýtið að manneskja á tilverustigi neytandans hugsi um veruleikann eftir ryþma viðskiptanna, „að grundvallartenging hennar við samfélagið og heiminn sé í gegnum peninga.“
Tómas Ævar Ólafsson skrifar:
Í bók sinni Capitalist Realism skilgreinir fræðimaðurinn Mark Fischer hugtakið viðskipta-verufræði, sem mætti þýða lauslega sem kapítalísk raunhyggja. Sú raunhyggja snýst um viðurkenna, eða allavega gangast við slagorðum nýfrjálshyggjunnar að það sé engin önnur leið í boði en kapítalisminn, hyggjan snýst einnig um að samþykkja þá köldu staðreynd að í nútíma loftslagsbreytinga, kjarnavopna og misskiptingar, er auðveldara að sjá fyrir sér endalok heimsins heldur en endalok kapítalismans. Endalok heimsins þ.e. mannheimsins eða samfélagsins. Kapítalisminn er svo rótgróinn samfélagi okkar að það virðist enginn leið að losna úr viðjum hans. Bók Fischers er stutt og kjarnyrt en þrátt fyrir það nær hann að rekja marga þræði sem hafa leitt okkur inn í þetta óhugnanlega tilvistarstig samtímans.
Í þriðja kafla bókarinnar hendir hann fram nokkuð forvitnilegu hugtaki, innan gæsalappa að sjálfsögðu. „Viðskiptaverufræði.“ Hann segir: „Á síðustu þrjátíu árum hefur kapítalísk raunhyggja sett á stofn „viðskiptaverufræði“ sem gengur ljóslega út á það að allt í samfélaginu, þar á meðal menntun og heilsugæsla, eigi að vera rekið líkt og fyrirtæki.“ Bók Fischers kemur út árið 2009 þannig að þau þrjátíu ár sem hann vísar þarna í ná aftur til ársins 1979. Það eru því greinilega einhverjir atburðir sem áttu sér stað í byrjun níunda áratugarins sem hrundu af stað þessari hugsun. Að allt skuli vera rekið eins og fyrirtæki.
Í skáldsögu sinni Katrínarsaga lýsir Halldóra Thoroddsen þessu breytingaskeiði tíðarandans af mikilli næmni. Aðalpersónan Katrín furðar sig á að gömlu skólafélagar hennar, innmúruðu fordómaknippin, séu komnir til valda. Þessir sem sátu hjá á meðan hippahreyfingin geisaði. Þeir boða frelsisbyltingu auðeigenda sem er ekkert annað en frelsi undan flestum þeim réttindum sem barist hafði verið fyrir. Halldóra fjallar um hvernig tungumálið breytti hugsuninni og að lykilorð þessarar ný-frjáls-hyggju hafi verið „neytandinn“ og mantra hans „þeir borgi sem neyta.“ Menntun umbreyttist einnig í marksækið nám undir formerkjunum „fjárfesting í framtíðinni“ sem leiddi til þess að háskólar urðu að þjónustumiðstöðvum atvinnumarkaðrins eða einfaldlega bara markaðarins (121). Hún kjarnar þetta í orðum Margretar Thatchers „Það er ekkert til sem nefnist samfélag, [Það eru] aðeins einstaklingar.“ (122) Samkvæmt frelsisbyltingu nýfrjálshyggjunnar treystum við því aðeins á einstaklinga, ekki samfélagið og borgum fyrir það sem við neytum, hvort sem sú neysla er menntun, kvikmyndir, máltíðir, ferðaþjónusta eða sjúkraþjónusta. Níundi áratugurinn einkenndist sem sagt af markaðsvæðingu og neysluskotinni einstaklingshyggju.