Búist er við að bæði Berglind Ásgeirsdóttir og Guðni Th. Jóhannesson svari því á allra næstu dögum hvort þau ætla að gefa kost á sér til forseta. Það sem meðal annars rekur á eftir þeim og öðrum hugsanlegum nýjum frambjóðendum er að utankjörfundaratkvæðagreiðsla hefst á morgun. Berglind íhugar alvarlega að bjóða sig fram.
Þessa stundina eru 12 sem hafa lýst því yfir að þeir ætli að bjóða sig fram. Framboð þeirra verður þó ekki gilt fyrr en þeir hafa skilað inn tilteknum lágmarksfjölda meðmælenda. Frestur til að skila inn meðmælendaundirskriftum rennur út 21. maí. Þá mun kjörstjórn taka einhverja daga til að fara yfir undirskriftirnar. Hún kannar hvort þær eru gildar og þá má ekki sami maður skrifa undir hjá fleiri en einum frambjóðenda. Eftir þessa yfirferð verður fyrst ljóst hverjir eru raunverulega í framboði.
Eftir að Ólafur Ragnar Grímsson steig fram og tilkynnti að hann væri hættur við að hætta hafa fimm sem tilkynnt höfðu um framboð hætt við, Bæring Ólafsson, Guðmundur Franklín, Heimir Örn Hólmarsson, Hrannar Pétursson og Vigfús Bjarni Albertsson. Áður hafði Þorgrímur Þráinsson lagt árar í bát. Þessir fimm hafa allir hætt vegna ákvörðunar Ólafs Ragnars. Ef Ólafur Ragnar hefði ekki stigið fram má leiða líkum að því að nú væru 16 sem hefðu gefið kost á sér.
Niðurstaða frá Guðna og Berglindi á næstu dögum
En það eru enn nokkrir sem ganga með forseta í maganum, eru að íhuga og hafa legið undir feldi. Nöfn sem nefnd hafa verið eru, Berglind Ásgeirsdóttir, Ellen Calmon, Guðni Th. Jóhannesson, Guðrún Nordal, Stefán Jón Hafstein, Sigrún Stefánsdóttir og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir. Berglind Ásgeirsdóttir sendiherra Íslands í París er komin til landsins í því augnamiði að ræða við bakland sitt. Hún segir að hún sé mjög alvarlega að hugsa um að bjóða sig fram. Von sé á tilkynningu frá henni á allra næstu dögum. Ellen Calmon segist hafa gert upp hug sinn en vill ekki upplýsa hver niðurstaðan er. Hún muni tilkynna hana á allra næstu dögum. Guðni Th. er enn að hugsa málið en mun tilkynna á næstu dögum um ákvörðun sína. Það gæti verið nú um helgina. Eftir því sem Spegillinn kemst næst eru taldar meiri líkur en minni á að hann fari fram. Guðrún Nordal segir það eitt að hún muni tilkynna ákvörðun sína fljótlega. Sigrún Stefánsdóttir hefur ekki gefið framboð upp á bátinn og ætlar að sjá hverju fram vindur. Hvorki náðist í Stefán Jón né Þorgerði Katrínu.
Utankjörfundarkosning ýtir við nýjum frambjóðendum
Það sem rekur á eftir þeim sem enn hafa ekki gert upp hug sinn er að frá og með morgundeginum verður heimilt að greiða atkvæði utan kjörfundar. Til að byrja með geta menn leitað til sýslumanna og í útlöndum til sendiráða. Á höfuðborgarsvæðinu verður hægt að greiða atkvæði í Skógarhlíð 6 í Reykjavík og í Bæjarhrauni í Hafnarfirði á skrifstofutíma. Skrifstofa embættisins í Skógarhlíð verður þó opin um helgar frá 12 til 14:00. Venjan hefur verið að þegar á líður sé opnaður kjörstaður fyrir utankjörfundaratkvæði í Laugardalshöllinni. Nú bregður svo við að þessi kjörstaður verður í Perlunni. Þar verður frá 9. júní opið alla daga frá 10 til 22.
Ólafur með meirihluta atkvæða
Þeir sem eru enn að velta fyrir sér framboði hafa eflaust beðið eftir skoðanakönnunum og spurning hvernig þeim líst á blikuna eftir að tvær kannanir hafa verið birtar. Óhætt er að segja að sitjandi forseti beri höfuð og herðar yfir aðra frambjóðendur. Í könnun sem fyrirtækið Zenter gerði dagana 20. til 28. apríl sögðust um 10 prósent ætla að skila auðu og rúm 15 % voru óákveðin. Ef bara eru teknir þeir sem tóku afstöðu eða nefndu frambjóðanda fengi Ólafur Ragnar 57,6% atkvæða. Næstur kæmi Andri Snær Magnason með rétt tæp 29% og í þriðja sæti kæmi Halla Tómasdóttir með 8,7%. Hrannar Pétursson sem er hættur við fékk í þessari könnun 2,1 prósent. Þrír eru með rétt yfir einu prósenti og þeir fimm neðstu með 0,2 % upp í 0,9%. Í könnun MMR sem gerð var dagana 22.-26. apríl sögðust 52,6% ætla að kjósa Ólaf Ragnar, 29,4% Andra Snæ og 8,8% Höllu Tómasdóttur. Aðrir voru með frá 1,7% niður í 0%.